Ég játa; sjúklega og illskiljanlega reiði í garð allra virkra alkóhólista og annarra fíkla. Andúð mín á tegundinni ristir dýpra en hatur mitt á ríkisstjórn Bandaríkjanna og lyktin af rotnandi mangóávexti samanlagt. Mér finnst það í raun ekki slæmt en ég er ósátt við að finna ekki röklegar skýringar á þessum hörðu viðbrögðum mínum við því sem flestir aðrir virðast líta á sem hversdagslegt bögg fremur en hreinræktaða illsku.
-Þú verður að skilja að þetta er sjúkdómur sagði hann.
-Já. Það er nú svosem greinilegt. Ef maður hefur fengið bílhjól yfir hnéskelina er hann augljóslega slasaður. En ef hann gekk viljandi fyrir bílinn var það samt ekki slys. Manneskja sem gúllar amfetamíni upp í nefið á sér er ekki sjúklingur heldur fáviti. Reyndar ennþá meiri fáviti fyrir að fara á bak við mann um lengri tíma og þræta svo fyrir það þegar maður spyr. Sá sem tekur eitur hefur yfirleitt enga ástæðu til að halda að hann sé undanþeginn afleiðingum svo gott og vel, ef fíkillinn er sjúklingur, þá er það bara gott á hann. Fari þeir til andskotans sem sjálfir leita hann uppi. Eina ástæðan til að púkka upp á þetta pakk er sú að neyslan og ruglið og geðveikin sem fylgir henni bitnar á öðrum.
-Ertu semsagt að segja mér að þér finnist þessi neyslusaga góðar fréttir?
-Já, sagði ég, mér finnst þetta bara fínt. Fullkomið dæmi um guðlegt réttlæti.
Hann horfði á mig yfir gleraugun dáltila stund, kannski dálítið óöruggur í aðra röndina, sagði svo og virtist rólegri en hann í rauninni var:
-Af hverju siturðu þá hér, gnístandi tönnum af heilagri reiði í stað þess að fagna þessum ánægjulegu tíðindum?
————————————–
Getur verið að reiði þín tengist fortíðarreynslu?
Posted by: Þorkell | 23.06.2007 | 13:55:48
————————————–
Allar tilfinningar tengjast reynslu. Ég hef hinsvegar ekkert verri reynslu af fyllibyttum en hver annar svo ég er reiðari en ég ætti að vera.
Posted by: Eva | 24.06.2007 | 9:47:15