Gestapistill um lögleiðingu vímuefna

Here is the English version of this article, written by Thorkell Ottarsson.

Þetta er gestapistill eftir Þorkel Ágúst Óttarsson. Þorkell hefur starfað í gistiskýli fyrir útigangsfólk í Drammen í Noregi í sex ár. Það áður vann hann í eitt ár á heimili fyrir geðfatlaða þar sem flestir voru í neyslu.

Hvers vegna ég vil lögleiða vímuefni þótt mér sé illa við þau

Áður en ég fór að vinna við að sinna fólki sem á við vímuefnavandamál að stríða var ég alfarið á móti því að lögleiða fleiri vímugjafa. Viðhorf mitt breyttist hinsvegar gjörsamlega þegar ég fór að horfa á vandann út frá sjónarhóli skjólstæðinga minna. Ekki það að ég hafi orðið frjálslyndur af því að vinna við að hjálpa fíklum. Þvert á móti. Ég tel fíkniefni vera mjög skaðleg og vildi óska þess að þau væru ekki til (nema þá sem læknislyf). En þau eru á götum úti og verða það um aldur og ævi. Með því að láta sem við getum sigrað þetta stríð gegn dópi völdum við bara enn meiri hörmungum og aukum á vandann.

 

Ég vil lögleiða dóp af eftirfarandi ástæðum:

1) Bann við sölu vímugjafa fjármagnar glæpi. Það gerði það á bannárunum í Bandaríkjunum (gerði Al Capone og aðra glæpamenn vellauðuga) og það gerir það einnig í dag. Sala dóps fjármagnar glæpagengi. Lítið bara á Mexíkó. Stríðið gegn dópi þar hefur kostað fleiri líf en þann fjölda Bandaríkjamanna sem féllu í Víetnamstríðinu.

2) Það að fangelsa fólk fyrir að hafa fíkniefni undir höndum eyðileggur fjölskyldur og líf neytendanna. Það kostar samfélagið heilmikið og hjálpar engum.

3) Það veldur meiri heilsuskaða að banna dóp. Þegar fólk kaupir dóp ólöglega veit það ekki hverju er búið að blanda saman við það. Einföld Google leit að „Crocodile drug“ ætti að gefa smá hugmynd um þann skaða sem óhrein efni valda. Það er ekki óalgengt að dópsalar blandi rottueitri og öðrum stórhættulegum efnum í dóp svo neytandinn haldi að það sé hreinna en það raunverulega er. Þessi efni éta fólk upp að innan og geta leitt til dauða innan 3ja ára. Aðrir hljóta varanlegan líkamlegan skaða. Við bönnum heimabruggað áfengi vegna þess að kaupandinn veit ekki hvað er í því og getur dáið eða blindast af drykkju þess. Hvers vegna ættum við að líta öðruvísi á þau vímuefni sem nú eru ólögleg? Væri ekki betra ef fólk væri öruggt um að dópið sem það keypti væri hreint í stað þess að eiga á hættu að kaupa eitthvað sem getur valdið enn meiri skaða og jafnvel dauða?

4) Það að banna dóp gefur glæpagengjum vald yfir neytendum. Það leiðir annars vegar til þess að þeir neyðast til að stela til að greiða skuldir sínar og hinsvegar til þess að þeir verða fyrir grófu ofbeldi. Neyandinn verður fyrir hópnauðgun (hver nauðgari greiðir fyrir og þannig er skuld dópistans greidd upp) eða hann er barinn til óbóta svo hann skilji að hann hefur ekkert val. Þetta bætir á andlega vanlíðan sjúklingsins en staðreyndin er sú að mjög margir fíklar eiga þegar við andleg vandamál að stríða (sem oft var ástæðan fyrir því að leir leiddust út í neyslu). Það er því verið að auka vanlíðan hjá fólki sem hafði það nógu skítt fyrir.

Það að lögleiða dóp myndi spara fjármagn og skapa inntekt sem hægt væri að nota til að reka áróðursstarfsemi gegn vínuefnanotkun og til að fjármagna meðferð fyrir fíkla. Það myndi einnig
gera lögreglunni kleyft að beina sjónum sínum að alvarlegri glæpum.

 

Neikvæða hliðin

Það er ein neikvæð hlið á því að lögleiða dóp. Það myndi lækka aðgengisþröskuldinn. Flestir vita ekki hvar þeir geta keypt dóp og þora ekki að gera það vegna þess að það er ólöglegt. Ef dóp væri selt í ákveðnum ríkisreknum búðum er hætta á því að fleirii yrðu viljugir til að prufa það. Það er einmitt þess vegna sem það er svo mikilvægt að upplýsa fólk um hættur dópneyslu. Sígarettur eru löglegar en samt reykja alltaf færri og færri. Og við sjáum að það dregur úr tóbaksneyslu þegar peningum er veitt í áróðursherferðir. Um leið og þeim er hætt eykst oft neyslan á ný. Það er því mikilvægt að minna fólk stöðugt á hættur þess að nota vímugjafa.

 

Stríðið hefur ekki skilað neinum árangri

Nú segja kannski sumir að fólk myndi hvort sem er halda áfram að kaupa dóp út á götu, jafnvel þótt það væri fáanlegt í ríkisreknum búðum. Ég er ekki svo viss um það. Það er dýrt að smygla dópi og því fylgir mikil hætta. Og jafnvel þótt dóp væri enn selt á götum úti þá er ég nokkuð viss um að dópistinn velji frekar hreint dóp frá ríkinu en óhreint dóp á götunni.

Já, lögleiðing fíkniefna veldur skaða en það er einnig skaðlegt að banna þau. Það er ekki eins og við höfum góða og slæma kosti. Báðir eru slæmir. Það er fyrir löngu kominn tími á að við lítum vímuefnaneyslu raunsæjum augum í stað þess að eltast við hugmyndafræði sem eykur bara á vandann.