Ég verð að játa að mér finnst ólíklegt að það þjóni tilgangi að ganga gegn ofbeldi, slysum og öðru sem hvorki yfirvöld né almenningur hafa lagt blessun sína yfir. Kröfugöngur og mótmælaaðgerðir beinast yfirleitt að stofnunum og stjórnvöldum sem eiga völd sín undir velþóknun kjósenda eða fyrirtækjum sem eru háð neytandandum. Slíkar aðgerðir hafa þó minni áhrif en ætla mætti. Ég held að þeim sem geta fengið af sér að beita manneskju (eða dýr ef því er að skipta) ofbeldi sé hjartanlega sama þótt fólk sem fílar ekki þessháttar hegðun þrammi Laugaveginn í rokinu.
Stjórnvöld geta bætt hag öryrkja með einni ákvörðun, snúið frá stóriðjustefnunni og hafnað þátttöku í hernaði. Þau geta ekki upprætt andfélagslega hegðun afbrotamanna jafn auðveldlega. Þau geta hert refsingar en það dregur ekki úr glæpatíðni. Það er hægt að hafa fleiri löggur á vappi í miðbænum, en með því er bara verið að færa vandann á milli staða, ekki uppræta hann.
Það hefur hvarflað að mér að með því að ganga gegn öllum fjandanum, sé hætta á að við gengisfellum kröfugönguna. Flestir eru mótfallnir slysum, þunglyndi, nauðgunum, heimilisofbeldi, vímuefnavanda, einelti, offitu og anorexíu. Ef við mótmælum opinberlega öllum félagslegum vandamálum, með sömu aðferð og við notum til að vekja athygli stjórnvalda á því að þau hafi tekið óvinsælar ákvarðanir, getum við þá búist við að kröfur sem þau eru fær um að bregðast við, hafi áhrif?