Fyrstaheimsvandamál

Þú veist að þú átt við fyrstaheimsvandamál að etja:

Þegar þú  “þarft“ að kaupa 32 jólagjafir fyrir utan það sem þú ætlar að gefa börnum og maka og sérð ekkert sem þér finnst koma til greina undir 2000 kr.

Þegar þú kaupir 32 gjafir sem þér finnst ólíklegt að verði nokkurntíma notaðar, átt ekki pening fyrir því sem þú ætlaðir að gefa þínum eigin börnum og finnst rökrétta lausnin vera sú að hækka yfirdráttarheimildina.

Þegar þú ferð með gjafir handa frændfólkinu í útlöndum í póst og sendingarkostnaðurinn er rúmar 3000 kr en í stað þess að tilkynna að aðeins börnin og makinn fái jólagjöf frá þér, kaupirðu sælgæti á pósthúsinu til að fylla upp í allan kassann.

Þegar þú pakkar inn 15. gjöfinni og það rennur upp fyrir þér að nýi maðurinn hennar systur þinnar á börn frá fyrra sambandi sem verða með þeim um jólin. Þú hefur aldrei séð þessi börn en það er ekki hægt að gera upp á milli systkina svo þú brunar í Kringluna og kaupir tvær gjafir í viðbót.

Þegar þú nefnir jólablankheitin á kaffistofunni og vinnufélagarnir kannast allir við vandamálið, sem er klárlega það að desemberuppbótin er ekki nógu há. Eftir stendur vandamálið; ég veit ekki hvernig ég á að fara að þessu, en í stað þess að einhver stingi upp á því að hætta þessu rugli, koma hugmyndir á borð við:

– Maður á bara að gefa eitthvað ódýrt (einmitt, þú hafðir bara ekki gert þér grein fyrir því, frábært að einhver skuli hafa fengið þessa glimrandi hugmynd.)
– Það er best að kaupa jólagjafirnar á janúarútsölunum (akkúrat sá tími ársins sem þú veður í peningum.)
– Flestum finnst skemmtilegast að fá heimatilbúnar gjafir (já og láglaunamanneskja hefur ekkert þarfara að gera en að verja 50 -100 klst í að búa til jólagjafir, auk þess sem er ódýrara að kaupa fjöldaframleitt drasl en efni í góðar gjafir. Eða áttu kannski að föndra eitthvað úr klósettrúllum?)

Þegar þú semur við vinkonu þína um að þið hættið að skiptast á jólagjöfum en kl 5 á aðfangadag birtist hún skælbrosandi með gjöf og heldur því fram að þetta sé ekki jólagjöf heldur „bara smáræði svona til gamans.“ Þegar þú nefnir þetta við kunningjana og spyrð hvernig eigi að bregðast við svona svindli færðu góð ráð á borð við:

– Það er sniðugt að kaupa nokkra konfektkassa og pakka þeim inn. Svo ef mann vantar gjöf í hvelli er pakkinn tilbúinn og maður þarf bara að smella merkispjaldi á hann. (Frábær hugmynd,  láglaunafólk sem er að reyna að klippa á þessa hefð, af því að hún veldur því meiri kvíða en ánægju, bætir bara tuttuguþúsundkalli við jólaútgjöldin til þess að vera því viðbúið að aðrir virði ekki samkomulag.)

Þegar þú ert að taka til í geymslunni og finnur 5 bækur og 3 geisladiska sem þið fenguð í jólagjöf í hittifyrra en gleymdist að skipta og þú áttar þig á því að þú hefur heldur aldrei notað bláa bolinn og spaghettýskammtamælinn sem þú fékkst í fyrra.

Þegar krakkarnir þínir fara á tombólu og koma heim með kertastjakann sem þú bjóst til á glerlistanámskeiðinu og gafst mágkonu þinni í jólagjöf.

Þegar fjölskyldan sammælist um að gefa bara smágjafir þetta árið og þú gefur systkinum þínum salt og piparstauka úr Tiger en færð 8000 króna bók frá bróður þínum og mágkonu. Þegar þú ásakar þau um að hafa svindlað, finnst þeim vandamálið vera það, að þú haldir að þau hafi ekki efni á að vera grand.

Þegar vinkonurnar eru sammála um að skiptast á smágjöfum en finnst mjög fyndið þegar þú segir heim að þig vanti heklunál, dósahníf og ryksugupoka. Þú færð ísskápasegul frá þeirri einu sem virðir regluna um smágjafir og skrautmuni sem passa engan veginn við heimili þitt frá hinum. Þann 27. desember eyðir þú svo  andvirði leikhússmiða í ryksugupoka og dósahníf.

Þegar þú segir fólki að ef það vilji endilega gefa þér eitthvað, komi sér best að fá neysluvöru, t.d. kaffi eða sápu. Þeir sem taka þig á orðinu geta ekki hugsað sér að gefa þér einn kaffipakka heldur kemur mörgþúsundkróna ostakarfa eða baðsápa í fokdýrum gjafapakkningum.

Það er samt ekki fyrr en þú vinnur í happdrætti og getur loksins leyft þér að kaupa jólagjafirnar í dýrari búðum en Tiger sem fyrstaheimsvandamálin verða verulega erfið. Þú áttar þig nefnilega á því að peningar leysa ekki fyrstaheimsvandamál. Þú veist ennþá ekkert hvað þú átt að gefa fólkinu þínu, því allir sem þú þekkir eiga allt nema einkaþotur. Nema náttúrulega Birna vinkona þín. Hún á eiginlega ekkert en staðhæfir samt að sig vanti ekkert nema ryksugupoka og heklunál. Þú getur ekki hugsað þér að gefa henni ryksugupoka svo þú kaupir handa henni bók. Að vísu voruð þið búnar að tala um að fara ekki yfir 2000 kallinn en þegar allt kemur til alls er hún Birna svo yndisleg vinkona og á það svo innilega skilið að fá almennilega jólagjöf. Þú færir henni almennilega gjöf og verður alveg steinhissa þegar hún kemur svo til þín nokkrum mánuðum síðar með þrefalt dýrari afmælisgjöf en hún hefur efni á.

 

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.