Fyrsta silkihúfan

Ég var í fimmta bekk og fyrsta daginn í nýjum skóla varð ég alvarlega ástfangin í fyrsta sinn. Hann hét Valli og var með svart hrokkið hár og andlitið skellótt af freknum. Sennilega hefur fullorðna fólkinu ekki þótt hann laglegur krakki en hann var leiðtogi og það ekki að ástæðulausu. Hann var skemmtilegur strákur, skarpgreindur og orðheppinn, óþekkur með afbrigðum en kom ekki illa fram við aðra krakka. Hann var óvenju réttsýnn. Hann gat tuskast við jafningja sína og lét þá alveg heyra það sem ekki stóðu sig í fótbolta en hann gerði sér grein fyrir því hverjir í hópnum voru minnimáttar og harðbannaði allt ofbeldi í þeirra garð.

Ég held að allar stelpurnar í bekknum hljóti að hafa verið létt skotnar í Valla en hjá mér risti það dýpra. Eftir viku í skólanum komst ég að því að handboltastjarnan í bekknum var vinkona hans. Hjarta mitt brast. Ég var hrædd við hverskyns bolta, gat hvorki gripið þá né skotið nálægt markinu og vissi að jafnvel þótt ég legði mig alla fram gæti ég aldrei orðið jafningi þessarar stelpu í íþróttum. Ég þjáðist í meira en heilt ár.

Einhverju sinni vildi svo til að við urðum bæði of sein í skólann, mættum á sama tíma og enginn á leikvellinum. Það er í eina skiptið sem ég minnist þess að hafa talað við hann einan. Hann ávarpaði mig keikur:
Heyrðu. Hérna – ertu eitthvað hrifin af mér eða eitthvað? spurði sjarmörinn og það var ekkert svo óþægilegt. Hljómaði bara svona blátt áfram, eins og hann væri að spyrja hvort mér þætti kartöflumús góð.
-Hver kjaftaði því? svaraði ég þótt ég vissi mæta vel að hvaða fáviti sem var gat séð hrifningu mína langar leiðir. Ég hefði alveg eins getað kveikt á sírenu og rauðum blikkljósum þegar hann birtist.
-Þú ert sko ekkert ljótt eða neitt. Ég myndi alveg vilja vera með þér ef ég væri ekki á föstu, sagði hann.

Þann dag öðlaðist líf mitt tilgang.

Jibbýkóla! Ég hefði semsé átt séns ef ekki hefði verið vegna þessarar handboltabelju. Sem var reyndar alls engin belja heldur fín stelpa sem manni hlaut að líka vel við. Ég reyndi að hata hana en það varð aldrei meira en vottur af afbrýði. Sagt var að þau Valli hefðu prófað -þetta-sem-byrjar-á-s-og-er-blautt-og-svo-dónalegt-að-maður-getur-ekki-sagt-það-upphátt, en í stað þess að hata hana dáðist ég að henni. Sjálf var ég svo mikil tepra að jafnvel í huganum kallaði ég það „að kyssast eins og í bíómynd“ og roðnaði þegar ég heyrði ljóta orðið sem hinir krakkarnir notuðu um þessa athöfn. Ég sá þau fyrir mér þótt ég gæti ekki notað dónalega orðið og þegar það gerðist þrútnuðu æðarnar í höndunum á mér og urðu eins og bláar garðslöngur. Ekki myndi ég þora að gera svoleiðis bara 12 ára, og sennilega aldrei.

Ég átti mér fantasíu sem í sakleysi sínu jaðraði við erótík. Á kvöldin dró ég sængina upp fyrir haus, lokaði augunum og hélt fyrir eyrun svo hugsanir mínar slyppu ekki út, eða kannski af því ég vissi ekki hvað annað ég gæti gert við hendurnar. Svo ímyndaði ég mér að ég sæti og dorgaði á bryggjunni við Krossanes. Veðrið var eins og í útlöndum og þarna kom Valli hjólandi. Hann skransaði, fleygði hjólinu kæruleysislega frá sér og settist hjá mér.
-Við erum hætt saman, sagði hann, mér er alveg sama.
Svo tók hann af mér veiðistöngina og henti henni frá sér til að halda í höndina á mér.

Þarna endaði fantasían. Ég reyndi nokkrum sinnum að bæta við hana kossi en það tókst ekki. Myndin bara endaði eins og einhver hefði slökkt á sjónvarpinu.
Svo flutti ég og smámsaman fór annar strákur að birtast á bryggjunni.

Í dag er ég engin tepra. Held ég.

Samt er sitthvað alveg eins og þegar ég var 11 ára og næstum dáin úr ást.

Mér er t.d. lífsins ómögulegt að búa til erótíska fantasíu um karlmann sem ég hef ekki verið með. Ég get blygðunarlaust dregið upp grófustu myndir af fyrrum elskhugum, líka hluti sem ég myndi ekki kæra mig um í alvörunni en þegar ég er skotin í einhverjum nýjum dettur myndin út á forstigi kossins og einhver fortíðardraugurinn poppar inn í staðinn fyrir draumaprinsinn og viðhefur hverskyns dónaskap. Ég get séð hinn dáða og þráða fyrir mér með einhverri annarri en ég get ekki tengt þær sýnir við sjálfa mig. Ekki svo að skilja að ég eigi neitt bágt út af þessu, mér finnst það bara athyglisvert. Mér finnst líka ennþá „sleikur“ vera ógeðfellt orð yfir koss.

Síðast þegar ég frétti af Valla fóru sögur af því að hann hefði veikst illa af töffunni á unglingsárunum og væri orðinn alkóhólisti og aumingi. Ekki hef ég aðrar heimildir og traustari fyrir því.