Fyrir aldur fram

Þú veist að þú ert orðin fullorðin þegar þú kaupir þér skó af því að þeir eru þægilegir þótt þú getir fengið aðra miklu flottari á sama verði.

Þú veist að þú ert orðin gamall þegar

  • þú telur tíma þínum best varið til þess að ræða daglega vandamál á borð við lausar gólfflísar við einhvern sem ber enga ábyrgð á þeim og hefur engan áhuga á þeim,
  • þú notar húsfundi til að ræða hluti sem enginn getur gert neitt í, svosem umgengni unglinganna í hverfinu eða partýhald í næsta húsi,
  • þú ert hræddur við fólk sem ekki sýnir ógnandi framkomu, af því að það er ungt, útlendingar, druslulegt til fara eða fær oft póst frá intrum,
  • þú ferð til læknis þótt sé ekkert að þér, bara til að kvarta yfir einhverju,
  • þér finnst engin ástæða til að vera snyrtilega til fara af því að þú ert svo gamall,
  • þér finnst engin ástæða til að læra neitt nýtt af því að þú ert svo gamall,
  • kveinar yfir því að fólk hafi engan áhuga á þér af því að þú sért gamall.

Halló ellismellur! Ef fólk nennir ekki að umgangast þig, þá er það ekki af því að þú ert gamall, heldur af því að þú ert gamall leiðindagaur sem gerir líf þess erfiðara. Ef þú vilt hafa félagsskap í ellinni, andskotastu þá til að vera skemmtilegt gamalmenni. Hvernig kemst fólk eiginlega að þeirri niðurstöðu að loksins þegar það hefur nægan tíma til að hanga á kaffihúsum, spila póker, skrifa bókina sína, spilla barnabarnabörnunum, eyða 4 tímum á dag í útlitið á sér, fara í leikhús og hitta vini sína, þá sé betra að nota tímann í að hanga einn yfir engu og bögga mann og annan með einhverju suði um hluti sem er mest lítið hægt að gera við?

Ég á nokkur gamalmenni að vinum og kunningjum. Og merkilegt nokk, það eru allt einstaklingar sem eiga svo marga vini og eru svo uppteknir við margt skemmtilegt að þegar þetta fólk hefur samband þá veit ég að það er vegna þess að því líkar nógu vel við mig til að gera sér ómak en ekki af því að það vanti bara einhvern til að væla í. Þetta er mismunandi fólk með mismunandi skoðanir og áhugamál, heilsunni farið að hraka og ég er viss um að þau hafa öll nægar ástæður til að kvarta. Það sem þau eiga öll sameiginlegt er bara eitt; þau eru uppteknari af því að vera manneskjur en gamalmenni, telja tíma sínum betur varið til að njóta þess sem hægt er en að sýta það sem ekki er í boði.

Það er hægt að umbera gamalmenni sem eru upptekin af því að vera gamalmenni. Alveg á sama hátt og maður umber smábörn þegar þau fá frekjuköst. En þegar maður hittir ungt fólk sem hegðar sér eins og gamalmenni, þá verður maður bara úrvinda. Bara gjörsamlega úrvinda.