Fram úr væntingum

Kampavín með morgunmatnum, ertu ekki að grínast?

Bröns á Hótel Sögu.
Grand.

Sérstök upplifun eftir rólegan morgun á náttsloppnum í arinstofu Pegasusar, yfir sunnudagskrossgátunni. Toppað með þessari líka fínu þjónustu. Hvað freðýsa myndi ekki þiðna á staðnum þegar elskhuginn færir henni hlýtt teppi og eðalkaffi með ögn af hnetusírópi. Af tillitssemi við femínistahreyfinguna, vandamenn og hugsanlega afbrýðisamar fyrri ástkonur ætla ég að stilla mig um að lýsa í smáatriðum flugeldasýningunni sem ég fékk á undan kaffinu og krossgátunni, en hún var í bókstaflegri merkingu fucking fantastic.

Ég hélt að ég væri komin með það nokkurnveginn á hreint hvað ég vildi fá út úr ástarsambandi. Listinn er langur og fyrir flesta menn líklega ógnvekjandi. Ég geri svona hræðilegar kröfur eins og t.d. að maðurinn hafi til að bera tilfinningalegt hugrekki. Jamm, það ERU góðar ástæður fyrir einlífi mínu, en endalaust dekur er nú samt ekki á listanum. Ég hefði verið sátt við að fá góðan, glaðan og vel lyktandi sálufélaga sem veitti mér fullvissu um að ég væri elskuð. Mér hefur aldrei dottið í hug að ég fengi svona mikið kikk út úr því að vera með manni sem eyðir helling af peningum í mig. Yfirleitt hef ég séð um að splæsa, enda hingað til verið í ívið skárri fjárhagsstöðu en þeir menn sem ég hef verið með, og hef ekki átt draumóra um dýr stefnumót eða neitt svoleiðis síðan ég var 12 ára eða þar um bil.

Reyndar snýst þetta ekki um það í hverju dekrið er fólgið heldur hvað er verið að segja með því. Mér þætti þetta örlæti virkilega óþægilegt ef ég héldi að hann væri að setja sig á hausinn fyrir það. Mér þætti það ábyrgðarlaust og það er ekki heillandi. Ég hef heldur aldrei getað slappað af gagnvart mönnum sem koma með fokdýrar gjafir eftir að hafa hitt mig einu sinni eða tvisvar eða reiða fram allt það dýrasta og flottasta sem mögulegt er áður en þeir vita neitt um mig. Svoleiðis flottheit orka einhvernveginn á mig eins og tálbeita. Ég fæ á tilfinninguna að kavalerinn sé með duldar væntingar sem er óvíst að ég vilji mæta og finn enga viðeigandi leið til að þakka fyrir mig. Það er allt öðruvísi þegar karlmaður sem er búinn að sjá töluvert meira en kroppinn á mér hegðar sér eins og hann sé ástfanginn. Það er ekkert erfitt að þiggja flott splæs þegar tilgangurinn er bara sá að toppa það sem er þegar gott.

Semsagt; háklassadekur hefur ekki verið á listanum yfir það sem ég þarf að fá frá karlmanni. Er ekki á listanum og verður aldrei á listanum. En þegar ég fæ slíkt, án þess að sækjast eftir því og veit að hann hefur efni á því, þá líður mér eins og ég sé verðmæt sjálf og það er örugglega betra en kókaín. Ég þarf faðmlög, ástarorð og athygli. Ég þarf ekki bröns á Sögu og kampavín með morgunmatnum. En kann ég að meta munað þegar hann á annaðborð er í boði? Fokk já!