Farðu varlega segi ég þegar Darri sest undir stýri í hálku. Farðu varlega, við leggjum sömu merkingu í þau orð. Ekki aka hraðar en þú ræður við, ekki aka bíl sem þú hefur ástæðu til að halda að sé með lélegar bremsur. Reiknaðu með að bílstjórinn fyrir framan þig gæti verið fáviti, fullur, með hjartasjúkdóm eða sofandi. Gerðu ráð fyrir að börn séu óútreiknanleg, haltu athyglinni vakandi, taktu fullt mark á merkjum og ljósum.
Farðu varlega segi ég þegar Haukur tekur þátt í mótmælaaðgerðum. Hann veit hvað ég á við. Notaðu öryggisbúnað þar sem þar á við og gakktu úr skugga um að hann sé í góðu lagi áður. Forðastu aðstæður sem geta leitt til átaka, ekki hætta á að vera handtekinn í landi þar sem gróf mannréttindabrot viðgangast. Ekki reita vopnað fólk til reiði. Ekki týna vegabréfinu þínu. Já og ekki týna vegabréfinu þínu. Hvað sem þú gerir, ekki týna vegabréfinu þínu.
Þessar aðvaranir þjóna auðvitað engum tilgangi nema þeim að róa sjálfa mig. Í fyrsta lagi eru þær óþarfar og ef væri ástæða til að minna þá á, hefðu mín orð sennilega ennþá minni áhrif eða jafnvel öfug. Fólk fer yfirleitt ekki eftir góðum ráðum nema það hafi beðið um þau. Ég er þannig sjálf og því skyldi ég þá reikna með að annað fólk sé hrifið af óumbeðnum leiðbeiningum um hluti sem það ræður alveg við sjálft? Ég veit semsagt vel að það þjónar ekki öðrum tilgangi að segja sonum mínum að fara varlega en þeim að staðfesta meira og minna dulvitaðar óskir mínar um að hafa stjórn á aðstæðum sem ég hvorki get stjórnað né fæ að hafa nokkuð um að segja. Af móðurlegri ást og stjórnsemi geri ég það nú samt og mun halda því áfram um ókomna tíð.
En hvað í fjandanum segir stjórnsöm kona við flugmann? Farðu varlega? Ég veit ekki einu sinni hvað það merkir að fljúga varlega. Ef það er þá hægt. Fljúgðu nú bæði lágt og hægt? Nei, það er nú líklega engin skynsemi í því. Gættu þín á fuglum sem gætu flogið á framrúðuna? Gættu þess nú að villast ekki inn á einhverja aðra flugbraut? Ekki aka inn í ský? Spenntu öryggisbeltið? Ekki fikta í neinum tökkum sem þú manst ekki til hvers eru? Ekki fikta í tökkum sem ég veit ekki til hvers eru? Ekki gera neitt sem ég myndi ekki gera (eins og mér dytti nokkurntíma í hug að reyna að stjórna svona tækniskrímsli) Kallaðu á hjálp ef kviknar rautt ljós í mælaborðinu? Víktu ef herþota kemur fljúgandi á móti þér?
Þetta er fáránlegt. Ég hef áhyggjur af því að eitthvað geti komið fyrir en veit ekkert í hverju hættan liggur. Ég þekki aksturslag Darra og þær hættur sem er líklegast að verði fyrir honum en ég hef aldrei flogið neinskonar loftfari, þekki ekki hætturnar og get ekki einu sinni séð sjálfa mig fyrir mér í þeim aðstæðum. Ég get sagt Darra að aka út í kant ef verður of hvasst til að aka eða ef ókennilegt ljós kviknar í mælaborðinu en ekki get ég beðið Walter að stoppa bara þyrluna ef eitthvað óvænt kemur upp á. Ég bið Hauk að hafa samráð við mig ef hann týnir passanum á ferðalagi en jafnvel þótt sú flippaða aðstaða kæmi upp að Walter lenti í vélarbilun og heilabilun samtímis og spyrði mig álits á því hvort hann ætti að reyna að lenda eða taka áhættu á því halda áfram, þá gæti ég ekki myndað mér skoðun á því.
Flugslys eiga sér stað. Kannski ekki mjög oft en það gerist. Líka nálægt litla Íslandi. Síðast í gær. Og ég finn hjá mér þörf til að að segja farðu varlega þegar Walter fer í flug en ég er einhvernveginn þannig gerð að ég verð að sjá rökrænt samhengi í því sem ég segi. Ég get gefið leiðbeiningar umhvað sem er svo framarlega sem ég get logið því að sjálfri mér að ég viti hvað ég er að segja. Ég get t.d. alveg ráðlagt vinkonu minni að gefa skít í fávita þótt ég hafi bara hennar hlið á málinu eða ákveðið að sterkasti leikur gamla, góða Villa væri sá að draga sig í hlé þótt ég sjálf hafi aldrei sagt upp starfi með eftirsjá. Ég get myndað mér skoðun á slíkum málum því ég hef þó altént þau rök að hamingja og hugarró séu verðmætari en slæmt ástarsamband eða hlægilegur stjórnmálaferill. Hvort það eru góð rök er svo allt önnur saga en ég er konan með svörin og mér líður vel í því hlutverki.
Það veldur alvarlegri sjálfsmyndarkreppu að vera konan með svörin og hafa engin svör og þekkja ekki einu sinni réttu spurningarnar. Ég veit ekki einu sinni hvað ég ætti að spyrja um til að fá svör sem gera mér fært að meta hættuna. Mig verkjar í afskiptasemina en ég get ekki sagt fljúgðu varlega. Ég get það ekki af því að ég hreinlega veit ekki hvað það merkir.
————————————–
Stundum verður maður bara að sleppa takinu og treysta…
Posted by: HT | 12.02.2008 | 10:48:27
— — —
Á ensku heitir þetta jú Take care, það finnst mér eiga svolítið vel við hér.
Posted by: hildigunnur | 13.02.2008 | 0:12:47