Fíkjublaðið

Þegar eldri sonur minn fæddist, áttaði ég mig á því að ég var fær um að kasta frá mér fíkjublaðinu. Ég veit ekki alveg hvernig ég lærði það. Sennilega smátt og smátt.

Elsta minning mín um særða blygðunarkennd er frá fyrsta vetri mínum í skóla. Vinsæll strákur í 2. bekk kíkti á mig á klósettinu og grobbaði sig af því við hina krakkana. Ég varð miður mín. Skömmin svo þungbær að ég gat ekki einu sinni sagt mömmu frá þessu og lengi á eftir sat ég í spreng í lengri tíma frekar en að pissa í skólanum. Ég minnist þess ekki að hafa nokkurn tíma aftur upplifað mig jafn svívirta því þótt ég hafi orðið fyrir mun grófari árásum síðar, var ég þá búin að taka þá afstöðu að það sé tilgangslaust að skammast sína fyrir eitthvað sem aðrir gera manni. Ég segi ekki að ég hefði gyrt niður mig í mannfjölda en þegar nokkrir strákar ruddust inn í búningsherbergi sundlaugarinnar þremur árum síðar, skrækti ég og reif fram handklæði bekkjarsystrum mínum til samlætis, frekur en skömm.

Það var samt ekki fyrr en ég lá útglennt á fæðingarbekk, með rakað skaut og flúorljós í klofinu, að viðstöddum fæðingarlækni, aðstoðarlækni, ljósmóður og föður ófædda barnsins, sem ég áttaði mig á því að notkun og staðsetning fíkjublaðsins var undir sjálfri mér komin. Ég fór allt í einu að hugsa um hvað það væri skrýtið að í raun hefði maðurinn minn aldrei séð sköp mín jafn greinilega nú, við aðstæður sem virtust einhvernveginn óraunverlegar og þá aðeins sem einn úr hópi áhorfenda. Áhugi hans á þremur í útvíkkun beindist ekki að mér, heldur að dyrunum sem barnið hans kæmi út um. Og þegar ljósmóðirin spurði hvort mér væri sama þótt læknakandidat yrði viðstaddur, var það með fullri sannfæringu sem ég samþykkti það. Ég varð hissa, því ég hafði átt von á að mér þætti erfitt að liggja í þessari stellingu fyrir framan annað fólk og ég hefði áreiðanlega sármóðgast ef Mimmi hefði stungið upp á því að fá að lýsa upp í mitt helgasta með flúorljósi heima í rúmi, en á þessari stundu hefði mér staðið hjartanlega á sama þótt hundrað og einn kandídat hefði gónt upp í flúorlýst klofið á mér í beinni útsendingu Ríkissjónvarpsins.

Það var á þessu augnabliki sem ég áttaði mig á hæfileikanum til að „aftengja“ mig tilfinningalega. Það sem gekk yfir líkama minn var ekkert persónulegt. Ég var ekki lengur Eva, heldur kjötstykki og ég var sannfærð um að enginn viðstaddra myndi nokkun tíma hugsa um mig í þessum aðstæðum sem kynveru eða tilfinningaveru, heldur aðeins sem læknisfræðilegt viðfang. Jafnvel maðurinn minn myndi aldrei hugsa um þessa mynd sem mig eða píkuna á mér, heldur sem safn samverkandi líffæra, líkama til að koma barni í heiminn. Ef aðrir gátu litið á mig sem hvert annað gangverk holds og vessa, hvaða skynsemi hefði það þá þjónað að blygðast mín? Það var fullkomlega órökrétt og mér varð hugsað til Adams og fíkjublaðsins og fannst hann vera fáviti að blygðast sín fyrir Guði.

Þar sem ég lá þarna við hliðina á skrokknum á mér skildi ég allt í einu að þótt Adam hafi falið sig með fíkjublaði er ekki þar með sagt að Eva sé knúin sömu hvötum. Kannski huldi hún sköp sín með fíkjublaði til að gera Adam til geðs, ekki af því hún þyrfti á því að halda. Á þessum tíma var ég að reyna að trúa á Guð og ég ákvað mér sjálfri mér að ef hann hefði ætlað manninum að blygðast sín fyrir sjálfan sig hefði hann skapað hann með áföstu fíkjublaði. Ég vissi að fíkjublöð væru til þess eins nýt að vernda gegn órökréttri blygðun, þá sem reyna að firra sig ábyrgð á eigin eplaáti á en blygðast sín samt stöðugt, ekki aðeins fyrir nekt sína heldur einnig fyrir nekt annarra. Ég vissi að ég réði yfir fíkjublaðinu sjálf og þá fór ég að velta því fyrir mér hvort það væri ekki svo um aðrar kenndir líka.