Facebook getur EKKI selt eða gefið myndirnar þínar
Birt þann af
Myndin er stolin
Nei elskan. Facebook mun ekki öðlast útgáfurétt á fjölskyldumyndunum þínum ámorgun. Andlitið á þér verður ekki notað í auglýsingu fyrir bandarískt símafyrirtæki án samráðs við þig og facebook mun ekki selja einhverjum myndirnar af krökkunum þínum, sem mun svo selja þær áfram til einhvers sem selur þær barnaklámhring. Þetta mun allavega ekki gerast eftir löglegum leiðum, svo mikið er víst. Facebook hefur ekki rétt til að framselja notkunarleyfi á myndunum þínum, jafnvel þótt þú hafir samþykkt alla skilmála án þess að lesa þá yfir og kunnir ekki á öryggisstillingar.
Höfundarréttarlög leyfa það ekki Ef auglýsendur hafa áhuga á að nota myndirnar þínar, verða þeir að fá formlegt leyfi þess sem á höfundarrétt að myndunum. Þótt þú hefðir gefið hverjum sem er leyfi til að nota allt þitt dót, þá er mjög líklegt að þú sért með myndir í safninu þínu sem þú átt ekki höfundarrétt að. T.d. er trúlegt að einhver annar hafi tekið flestar myndirnar af þér.
Þótt bróðir þinn leyfi þér að birta myndir sem hann tók af þér og krökkunum þínum, þá hefur þú engan lagalegan rétt til að leyfa öðrum að birta þær, hvað þá að nota þær í auglýsingar. Þú hefur þannig ekki rétt til að gefa Facebook leyfi til að nota þær myndir sem þú birtir á síðunni þinni, nema hugsanlega þær myndir sem þú tókst. Í svo stóru netsamfélagi sem Facebook er, er auk þess útilokað annað en að einhverjir birti myndir sem þeir hafa fundið á netinu og mega strangt til tekið ekki deila (þótt flestir líti svo á að það sé í lagi svo fremi sem þeir eru ekki að gera það í gróðaskyni.) Það yrði mun flóknara mál og dýrara líka að fara í gegnum myndasöfn Facebook notenda til að finna góðar myndir en að ráða almennilegan ljósmyndara. Auk þess eru hverfandi líkur á að fb ráði einkaspæjara til að komast að því hvort þú eigir höfundarréttinn að myndunum í safninu þínu.
Notkunarskilmálar eru aldrei æðri lögum Notkunarskilmálar á netsíðum þjóna oftast þeim tilgangi að gera notendum ljóst hvar þolmörk fyrirtækisins á bak við síðuna liggja (þú getur t.d. ekki gert ráð fyrir að fá frið til að stunda dópviðskipti eða dreifa klámi í gegnum síðuna) og stundum að fá samþykki þitt fyrir því að auglýsendur fái að angra þig, ekki til að stela efni frá þér heldur til að fylla pósthólfið þitt af auglýsingum og öðrum ruslpósti. Í einstaka tilfelli er hætta á að maður skuldbindi sig til að kaupa eitthvað svo og svo oft á ári en þó er óvist að það stæðist fyrir dómi. Notkunarskilmálar eru hinsvegar ekki settir til þess að svipta þig lögbundnum réttindum þínum.
Þú getur ekki afsalað þér mannréttindum, slíkt afsal væri einfaldlega ógilt fyrir dómi. Þú getur heldur ekki afsalað þér réttinum til að fá að taka upplýsta ákvörðun um það hvort þú gefur öðrum leyfi til að nota hugverk þín eða réttinum til að ráða því hvort þú lánar fyrirtæki nafn þitt og andlit. Því síður geturðu afsalað þér þeim rétti bara með því að vanrækja öryggisstillingar eða vera tækniklaufi. Jafnvel þótt það væri hægt, geturðu ekki gefið fyrirtæki leyfi til að nota verk annarra.
Það stæðist heldur ekki persónuverndarlög Ef Facebook ætti að öðlast rétt til að gefa öðrum leyfi til að nota efni sem þú birtir, án formlegs samnings, þyrfti fyrst að afnema höfundarréttarlög í öllum ríkjum veraldar. Það þyrfti líka að breyta persónuverndarlögum því það er útilokað að koma í veg fyrir að þú birtir upplýsingar um aðra sem kunna að vera viðkvæmar eða rangar (það getur gerst þótt þú sér bara að reyna að vera fyndinn). Það sem þú segir blasir þá að vísu við á síðunni og gæti jafnvel valdið viðkomandi skaða en að það stæðist persónuverndarlög að þriðja aðila yrði gefið leyfi til að nota slíkar upplýsingar í auglýsingaskyni, það er af og frá. Það eru því engar líkur á að facebook gefi lyfjafyrirtæki leyfi til að nota myndina þína af yfirmanninum þínum geðveikislegum til augnanna, ásamt athugsemd um að nú sé hann loksins búinn að taka doxypamið sitt (hvað sem það nú er) til að auglýsa lyf.
Það yrði of flókið að draga fólk til ábyrgðar fyrir framsal höfundarréttar Aukinheldur er hæpið að það sé yfirhöfuð hægt að gera mann ábyrgan fyrir neinu sem hann hefur ekki undirritað í votta viðurvist. Það er alkunna að fólk búi til fb síður undir gervinöfnum. Með slíkri síðu gæti fólk gefið fb rétt til að framselja höfundarvarið efni annarra án þess að gera grein fyrir sér ef þessi flökkusaga stæðist lög. Það er heldur ekki hægt að útiloka að einhver komi að síðunni þinni opinni og breyti stillingum eða hreinlega hakki sig inn á hana. Það gæti orðið flókið að kalla mann til ábyrgðar fyrir framsali höfundarréttar og því ólíklegt að birtingarleyfi verði nokkurntíma sótt til einhvers Facebooknotanda, bara út á aðgangsstillingarnar hans, án þess að það sé neitt rætt frekar.
Það er alveg ástæða til að hafa það hugfast að allt sem þú gerir á fb getur orðið hverjum sem er sýnilegt, hvað sem öllum öryggisstillingum líður. Þessvegna er ágæt regla að birta ekkert á Facebook sem þú æltar ekki að sýna mömmu þinni, löggunni, skattinum og Vítisenglum. En þessi ótti um að þú sért að afsala þér sjálfsögðustu réttindum með því að birta myndir, texta eða annað efni á netsíðu, hann er alveg óþarfur.