Eruð þér í tygjum við farandtittling?

farandtittlingur

Nú hafið þér átt nokkur stefnumót við sama kavaléra. Hann kemur fram af kurteisi og virðist hinn dægilegasti maður. Þó skuluð þér hafa hugfast, áður en þér gefið honum hug yðar og hjarta, að til eru fleiri tegundir fjöllyndismanna en flagarinn. Til eru menn sem þrátt fyrir að binda að nokkru leyti tryggð við stúlku eru haldnir svokallaðri skuldbindingarfælni. Slíkur maður er ekki góður húskostur því hann er aldrei til staðar nema honum sjálfum henti og flestir þeirra eiga vingott við margar konur í senn.

Á ensku kallast kvennabósi af þessu tagi „drifter“ sem á íslensku gæti útlagst „flakkari“ eða „rekald“. Hvorugt orðið er þó lýsandi, því flakkarar eru í ævintýraleit og rekald hrekst fyrir straumum. Fjöllyndir menn og ístöðulausir eru ekki endilega ævintýragjarnir og því síður viljalausir. „Farfugl“ væri betra orð því hann staldrar við um tíma, fer svo sína leið og reiknar með því að geta gengið að sínum hreiðurstað vísum þegar honum hentar. Þó er hætt við að orðið „farfugl“ valdi misskilningi og þar sem ekki er ætlunin að bendla ástmann yðar við spóa eða þúfutittling verður hann hér greindur frá vaðfuglum og mófuglum með heitinu „farandtittlingur“.

Farandtittlingurinn og flagarinn eiga það sameiginlegt að vilja dreifa sæði sínu sem víðast. Munurinn er sá að flagarinn lítur eingöngu á yður sem ílát undir klámfenga líkamsvessa sína. Farandtittlingurinn getur aftur á móti vel borið til yðar blíðar tilfinningar þótt vissulega sé honum einnig í mun að brynna fola sínum í ölkeldu yðar. Hann eyðir e.t.v. með yður nokkrum kvöldum í röð og sendir yður smáskilaboð. Þér eruð alsælar og teljið víst að þið séuð að hefja langt og farsælt ástarsamband. Svo líða nokkrir dagar án þess að hann hafi samband að eigin frumkvæði. Hann svarar skilaboðum yðar seint og illa og hefur ekki breytt sambandsstöðu sinni á fésbókinni. Ef þér takið ekki í taumana strax mun hann draga yður á tálar og ræna meydómi yðar jafnvel þótt hann hafi engan hug á að kvænast yður og geta yður börn.

Ef þér hafið átt nokkur stefnumót við álitlegan pilt, skuluð þér því ganga úr skugga um hvort hann er farandtittlingur áður en þér verðið helteknar af honum. Ekki er ráðlegt að spyrja hreint út hvaða augum hann líti samband ykkar því karlmenn eru í eðli sínu veiðimenn sem missa áhugann ef kona gengur á eftir þeim og tilhugsunin um heiðarleika í samskiptum er þeim nánast óbærileg. Heilladrýgri eru eftirfarandi ráð:

  • Búið til gerviprófíl á fésbókinni, með mynd af snoturri stúlku og sendið honum vinarboð. Pókið hann í tíma og ótíma og sendið honum léttúðarhjal í einkaskilaboðum. Ef hann tekur undir það getið þér spurt hann hvort hann sé heitbundinn. Ef hann neitar því og nefnir ekki að hann eigi vingott við yður, þá er hann að líkindum farandtittlingur.
  • Ráðið tölvuhakkara til þess að brjótast inn á fésbókarsvæðið hans og tölvupóstinn. Laumist einnig til þess að skoða símann hans. Þannig komist þér á snoðir um hugsanlegt kvennaflandur hans en þessi aðferð hefur fleiri kosti sem síðar verða útlistaðir.
  • Ef ástmögur yðar reynist farandtittlingur verðið þér að ákveða hvort þér viljið hafna honum, sætta yður við að hann hegði sér eins og graðnaut í haga þar sem þér eruð aðeins ein kýr í hjörðinni eða snúa honum til betri vegar.

Ef þér eruð dindilhosa gæti vel hentað yður að eiga farandtittling að vini því þér eruð þá sjálfar frjálsar að því að tylla yður á hvert það kjánaprik sem á vegi yðar verður. Ef þér eruð dándikona væri skynsamlegast fyrir yður að hafna farandtittlingnum. En ástin lýtur ekki alltaf kalli skynseminnar og ef til vill sitjið þér þegar uppi með farandtittling sem þér hafið hug á að temja svo úr verði æskilegur húskostur. Til þess þurfið þér einungis að læra einfalda en áhrifaríka kúgunartækni. Fylgist því með sjálfshjálpardálkinum næsta föstudag en þá gefst yður kostur á að læra nokkra kvenlega klæki.