Eruð þér ástfangnar af plastpokamanni?

plastpokamadurinn-688x451

Nú hafið þér fengið meira en nóg af samskiptum við flagara og farandtittlinga og loksins, loksins hafið þér kynnst manni sem virðist vera tilbúinn til skuldbindingar. En stingið eigi höfðinu í steininn, kona góð, því margur er úlfur í flíspeysu. Hugsast getur að yðar elskulegi kvennaljómi sé af þeirri manngerð er upp á útlensku nefnist „nestler“ sem á móðurmáli voru merkir hreiðurgerðartittlingar.

Munurinn á farandtittlingi og hreiðurgerðartittlingi

Hreiðurgerðartittlingar eiga það sammerkt með farandtittlingum að eiga engin langtímasambönd að baki. Munurinn er sá að farandtittlingurinn heldur yður í stöðugri óvissu og yfirgefur yður svo án skýringa en hreiðurgerðarmaðurinn er hins vegar tilbúinn til að gera yður að heiðvirðri konu um leið og hann hefur í fyrsta sinn brynnt fola sínum í ölkeldu yðar. Það ævintýri endist þó venjulega stutt og þegar hann fer sína leið er meiri skaði unninn en eftir ævintýri með farandtittlingi, því þá hafið þér þegar gert ýmsar breytingar á lífi yðar með tilliti til breyttrar stöðu yðar sem hamingjusamrar eiginkonu. Þér kunnið að hafa flutt milli hverfa, tekið á yður fjárhagsskuldbindingar og ef þér eigið börn frá fyrri samböndum við flagara og farandtittlinga, má vera að þau hafi tekið ástfóstri við manninn, sem í mörgum tilvikum hegðar sér eins og ungapabbi, þar til hann skyndilega lætur sig hverfa eða gefur yður ástæðu til að slíta sambandinu hið snarasta.

Plastpokamaðurinn

Af öllum hreiðurgerðartittlingum er plastpokamaðurinn sá viðsjárverðasti. Plastpokamanninn má þekkja af því að þegar þér kynnist honum býr hann í stofusófanum heima hjá móður sinni, þar sem hann er nýlega skilinn við geðveika konu. Ef þér spyrjið nánar út í hans fyrri sambönd komist þér fljótt að því að maðurinn virðist hafa einstakt lag á því að laða að sér geðveikar konur því öll hans sambönd hafa endað með því að sú geðveika henti honum út með látum, seldi mótorhjólið hans á e-bay og sendi honum hatursskilaboð á fésbókinni.

Plastpokamaðurinn verður umsvifalaust ástfanginn af yður. Hann sendir yður krúttleg sms-skilaboð í tíma og ótíma og færir yður blóm. Ekki þó í sellófani eða silkipappír og samsetning blómvandarins getur verið all frábrugðin þeirri sem algengust er í blómabúðum borgarinnar. Þetta skýrist af því að ástmögur yðar hefur ekki efni á því að versla við bensínstöðvar, hvað þá blómabúðir og sækir því ástargjafir sínar í næsta kirkjugarð.

Plastpokamaðurinn vill ólmur hefja sambúð sem fyrst og þrátt fyrir þá augljósu skýringu að móðir hans geri kröfu um þögn eftir klukkan ellefu á kvöldin og beri gjarnan fram rétti á borð við kjötfars í káli og fiskibollur í bleikri sósu, þá segja augu hans að eina ástæðan fyrir óstjórnlegum áhuga hans á að deila með yður heimili sé þrá hans eftir yndislegri nærveru yðar.

Eignastaða plastpokamannsins

Áður en þér vitið af er maðurinn fluttur inn til yðar með allar sínar veraldlegu eigur. Þær komast fyrir í tveimur plastpokum, enda hafa hinar geðveiku konur sem hann áður hefur ruglað saman reytum við, rúið hann inn að skinni, eða öllu heldur inn að flíspeysunni því hana á hann ennþá. Aukinheldur 8 tölvuleiki, tannbursta, tvennar slitnar gallabuxur, þrennar nærbuxur, og búnt af nýjum sokkum, sem móðir hans keypti í Rúmfatalagernum og færði honum í sárabætur fyrir 42 pör af götóttum og/eða ósamstæðum sokkum, sem hún henti að honum forspurðum.

Nú kunnið þér, sem einkar jákvæð kona og ef til vill blinduð af ástinni, að líta svo á að eignaleysi mannsins sé í raun mikil blessun. Ekki síst þegar hann, auk plastpokanna tveggja, flytur inn á heimilið innflutningsgjöf frá móður sinni; stórt landslagsmálverk í íburðarmiklum gylltum ramma. Myndin reynist vera hennar eigið sköpunarverk, afrakstur listmálunarnámskeiðs á vegum eldri borgara, svo að sjálfsögðu gerir hinn nýbakaði sambýlismaður yðar móður sinni þann heiður að hengja listaverkið upp í stofunni. Þér hugsið sem svo að öll sambönd krefjist málamiðlana og þar sem þér sárfinnið til með yðar heittelskaða sem neyðist til að sætta sig við allar eigur yðar, sem hann tók engan þátt í að velja, er ekki nema sjálfsagt að listaverk móður hans fái að hanga í stofunni.

Eftir tveggja mánaða hamingju fara þó að renna á yður tvær grímur. Fyrst þegar þér komið óvænt heim um miðjan dag og yður til undrunar er tilvonandi lífsförunautur yðar heima að spila tölvuleiki en ekki í vinnunni. Næst þegar þér komið heim og rekið forstofuhurðina í gírkassa sem stendur í gangveginum. Þér gangið inn og sjáið, yður til hrellingar, að í stofunni stendur skrifborð með gamalli tölvu, sem að sögn mannsins er dálítið biluð en stendur til að láta gera við, handa börnunum. Einnig hægindastóll frá 8. áratug síðustu aldar, með óranslitu áklæði og grænum krosssaumspúða. Aukinheldur píanóbekkur með hundalöppum og sessu með útsaumuðu rósamynstri. Skýringin á þessu öllu saman reynist sú að hinar geðsjúku tíkur sem rúðu manninn inn að flíspeysu, reyndust nógu miklar smekkmanneskjur til þess að eftirláta honum ýmsa erfðagripi sem hafa verið í geymslu síðan. Nú hefur hann ekki greitt leigu fyrir geymsluhúsnæðið í meira en þrjá mánuði og eigandinn hefur því krafist þess að það verði tæmt hið snarasta, ella muni hann henda þessu dýrmæti á haugana.

Þér gerist veikar á geði

Og þrátt fyrir þetta allt saman munuð þér standa með yðar manni. Allt til þess dags að einhver ómerkilegur atburður verður til þess að skipa yður í hóp hinna geðveiku kvenna sem hafa sameinast um að eyðileggja líf hans. Þeir atburðir geta verið af ýmsu tagi. Nokkur dæmi um það sem gæti gerst:

  • Hann gleymir að skrá sig út af fésbókinni og á skjánum blasir við eldheitt ástarbréf til annarrar konu, þar sem hann lýsir því hversu erfiðar þér séuð í sambúð.
  • Hann hefur notað krítarkortið yðar (sem þér réttuð honum sjálfar í þeirri trú að það yrði notað til kaupa á súrmjólk og bensíni) til þess að kaupa mótorhjól.
  • Ritalínið, sem hann neyðist til að taka vegna ofvirkni og athyglisbrests, reynist vera amfetamín og ekki uppáskrifað af lækni.

Það er á þessari stundu sem þér gerist veikar á geði. Þér hendið gírkassanum (sem stendur ennþá í forstofunni) fram af svölunum og á eftir honum tvennum nærbuxum (því hann klæðist þeim þriðju). Svo fáið þér lásasmið til að skipta um læsingu á útidyrunum. Að lokum sendið þér honum kalda kveðju á fésbókinni og seljið mótorhjólið á e-bay.

Kosturinn við plastpokamanninn er sá að þér hafið enga ástæðu til að syrgja hann. Það er þó full ástæða til að fara hægt í sakirnar ef sjarmör á vergangi vill ólmur hefja með yður sambúð, því jafnvel þótt þér séuð svo fyrirhyggjusamar að geyma krítarkortið í skotheldu öryggishólfi, mun koma að því að þér standið frammi fyrir því að þurfa að taka ákvörðun um það hvað þér eigið að gera við listaverkið sem hangir í stofunni.