Tvennt er það sem greinir manninn frá öðrum skepnum jarðarinnar. Hið fyrra er fullkomnunaráráttan; þessi undarlega hneigð mannsins til að vera aldrei sáttur við aðstæður sínar mjög lengi. Þurfa stöðugt að bæta og breyta, stundum bara breytinganna vegna, vilja alltaf upplifa eitthvað nýtt og öðruvísi, finnast meira aldrei nóg. Þetta er í senn jákvæð hneigð og neikvæð. Hún er hvati allra framfara, rót alls sem við getum kallað menningu en einnig orsök streitu, óánægju, öfundsýki og illdeilna.
Hinn eiginleikinn sem gerir okkur að mönnum er löngunin til að bæta líf annarra og deila vísdómi okkar með öðrum. Það er fallegt og gott því ef enginn kenndi okkur neitt lærðum við fátt annað en það sem er okkur eðlislægt og enginn kæmi okkur til bjargar í neyð. Hinsvegar fer þessi hvöt líka út í óþolandi afskiptasemi á köflum.
Flest vitum við miklu betur en ástvinir okkar hvað er þeim fyrir bestu og örlæti okkar á góð ráð á sér engin takmörk. Ég finn t.d. mjög sterkt fyrir þessu hjá sjálfri mér. Bara ef ég fengi að stjórna lífi systra minna yrðu þær fullkomlega hamingjusamar. Ég finn líka hjá mér óstöðvandi þörf fyrir að gera flestum sem á vegi mínum verða grein fyrir því hversu mikla hamingju þeir myndu finna í framhaldsnámi. Mun ég og hafa rétt fyrir mér í þeim efnum en engu að síður eru heilræði mín venjulega að engu höfð. Annað dásamlegt dæmi má sjá í athugasemdum við bloggfærslu mína fyrr í vikunni, þar sem maður sem hefur hvorki talað við mig né séð mig nema á mynd, telur sig hæfan til að meta hvort ég eigi erindi til sálfræðings eður ei.
Mig langar í betra líf þótt líf mitt sé alveg nothæft eins og það er. Mig langar að fólkið sem ég elska geri það sem ég álít að sé því fyrir bestu. Þá hlýt ég að vera mennsk. Fólk er náttúrulega fífl en það er eitthvað svo fallegt við mennskuna. Ég er bjáni ergó ég er til. Nema persónur í sápuóperum séu sömu fávitarnir og raunverulegar manneskjur.