Er vöruúrval fátæklegra eftir umsvif Baugs?

Kunningi minn heldur því fram að þótt vörumerkjum hafi fjölgað, hafi nú samt sem áður verið fjölbreyttara vöruúrval í íslenskum matvörubúðum fyrir tilkomu Baugs, ef maður lítur á yfirflokkana. Það hafi kannski bara verið til eitt vörumerki af hverri tegund en allskyns matur sem nú er ófáanlegur, svosem niðursoðnar ansjósur og enskt sinnep, hafi verið í boði. (Reyndar eru niðursoðnar ansjósur fáanlegar og hægt er að kaupa duft í enskt sinnep.)

Fyrstu viðbrögð mín eru nú bara þau að hrista hausinn. Eins mikla óbeit ég hef á svíninu, þykir mér nú samt ótrúlegt að vöruúrval sé fábreyttara nú en 1989. Það eru allt önnur bolabrögð þessa auðvaldssvíns sem fara fyrir brjóstið á mér. Baugur er stærsta ástæðan fyrir því að það er vonlaust fyrir aðra en vellauðuga að reka matvörubúðir í dag, Baugur hefur gífurleg völd og getur sagt heildsölum algjörlega fyrir verkum því það er Baugur sem ræður úrslitum um það hvort heildsali kemst af eða fer á hausinn. Margt ljótt sem má segja um svínið.

Ég er sjálf alin upp á soðnu kjötfarsi með káli og ýsu með kartöflum og Vals tómatsósu svo auðvitað getur hugsast að allar þessar exótísku vörur sem kunningi minn man eftir frá sinni bernsku, hafi fengist, þótt mínir foreldrar hafi ekki keypt þær. Ég er samt ekki alveg tilbúin til að kyngja því, fyrr en ég fæ staðfestingu frá fleira fólki. Ég ætla nú ekkert að fara að tjá mig um hreinlætis- og snyrtivörur (sem ég held að séu til í mun fjölbreyttara úrvali en fyrir 20 árum) en manst þú t.d.eftir því að eftirtaldar vörur hafi fengist í íslenskum matvörubúðum á áttunda og níunda áratugnum:

 • Ostrusósa, drekasósa,
 • salsasósa,
 • pestó,
 • Cantonese,
 • mango chutney,
 • satay sósa
 • tahini, hummus,
 • kókosmjólk, soyamjólk, rísmjólk,
 • maísflögur, taco skeljar, tortilla,
 • nanbrauð,
 • ferskt pasta, eggjapasta,
 • ferskt spínat, ferskur aspas, sætar kartöflur
 • hrein jógúrt, grísk jógúrt,
 • fetaostur, ferskur mossarella,
 • niðursoðinn smámaís, niðursoðnir ætiþistlar (hver borðar þá annars?)
 • sólþurrkaðir tómatar
 • tilbúin (fryst) grænmetisbuff og bökur
 • vegan ostlíki,
 • vegan salatsósur
 • hlynsýróp, agave sýróp, sýrópsblöndur ætlaðar til að bragðbæta kaffidrykki,
 • 70% súkkulaði,
 • sólarkaffi
 • ósaltað hnetusmjör, pistasíur, furuhnetur
 • carob, próteinstangir og annað íþróttanammi
 • elgskjöt, kengúrukjöt,
 • akurhænur, lynghænur

Ég man til að eftitöldum vörum hafi brugðið fyrir á 9. áratugnum en hafi menn getað gengið að þeim vísum í þeim búðum sem ég verslaði við, þá hefur þeim verið raðað í efstu hillur.  Voru þessar vörur almennt í boði í þinni búð fyrir 1989?

 • ferskur kúrbítur, ferskt eggaldin,
 • ferskur engifer, ferskur halapeno,
 • fyllt pasta,
 • kúskús
 • súrsæt sósa,
 • garam masala
 • pítubrauð,
 • fryst og forbökuð snittubrauð og smábrauð,
 • ferskur parmesanostur.

Ég man eftir helling af vörum sem fengust í bernsku minni og fást ekki lengur en það eru nánast allt merki og til nóg af vörum í sama flokki. Ég man eftir Miranda appelsíni og líklega (vonandi) er engin vörutegund til í dag sem líkist Vals tómatsósunni. Vöruflokkar aftur á móti… jú ég eftir engiferöli sem ég er ekki viss um að fáist í dag og eldsúru, óhrærðu skyri, hef ekki séð það í íslenskum matvörubúðum lengi (ég hef heldur ekki spurt hvort það fáist.) Ég hef heldur ekki séð pöddusleikjó sem mig minnir að hafi verið mesta töffaranammið í kringum 1980. Já og hnetubrjóstsykur, ég hef ekki fundið neitt sælgæti sem kemur í staðinn fyrir hnetubrjóstsykurinn sem eitthvert illmennið ákvað að taka úr makkíntossinu en kannski var það ekki Baugur sem stóð fyrir því.

Eins og ég segi, ég var alin á kjötfarsi og nokkuð öruggt að mér yfirsést eitthvað svo endilega rifjið upp. Hvaða vörutegundir manst þú til að hafi fengist fyrir 1990 sem eru ófáanlegar á Íslandi í dag? (Ég á ekki við vörumerki heldur vörutegund.) Og hver telur þú að sé stærsta ástæðan fyrir því að þessar vörur voru teknar af markaðnum?

Umræður hér