Margir virðast ekki skilja hugmyndina á bak við mannréttindi. Allavega verður þess iðulega vart í umræðum á netinu að fólk telur algeran óþarfa að virða mannréttindi þegar einhverjir drullusokkar eiga í hlut. T.d. telja margir óþarft að vítisenglar njóti mannréttinda og í umræðunni um Breivik bar töluvert á því viðhorfi að hann ætti ekki annað skiið en pyndingar og dauðarefsingu.
Mannréttindi eru hinsvegar ekki nammiúthlutun handa þeim sem verðskulda þau. Mannréttindi eru réttindi sem menn njóta (eða eiga að njóta) skilyrðislaust. Réttindi sem menn þurfa ekki að ávinna sér og eru ekki háð því að viðkomandi sé góður gæi eða einu sinni þolanlegur. Það er nefnilega svo að yfirvöld brjóta ekki gegn mannréttindum þeirra sem þau telja að verðskuldi þau, heldur einmitt hinna, þeirra sem þau skilgreina sem hryðjuverkamenn og óvini ríkisins. Þótt ég sé sannfærð um að Bradley Manning hafi unnið heiminum mikið gagn eru bandarísk stjórnvöld því fullkomlega ósammála og álit þeirra vegur því miður þyngra en mitt. Hjá því verður ekki komist, það er nánast útilokað að ég og stjórn Bandaríkjanna verðum nokkurntíma sammála um það hvaða upplýsingar eigi erindi við almenning eða hvaða ráðum megi beita til að fletta ofan af valdníðslu og vafasömum vinnubrögðum yfirvalda. Mannréttindasjónarmið, t.d. sú skoðun að allir, jafnvel hin verstu skítseiði og glæpamenn, eigi rétt á því að sekt þeirra eða sakleysi sé metin af óhlutdruægum dómstólum eftir að öll gögn og sjónarmið í málinu hafa verið lögð fram, ættu hinsvegar að vega þyngra en álit bæði stjórnvalda og almennings. Mannréttindahugtakið var nefnilega ekki fundið upp fyrir góða fólkið heldur fyrir vonda fólkið, þá sem yfirvöld álíta án nánari skoðunar að hljóti að vera sekir um ófyrirgefanlega hegðun.
Ein af grundvallarforsendum réttarríkisins og veigamikill þáttur í sjálfri hugmyndinni um mannréttindi er sú regla að maður skuli teljast saklaus uns sekt hans er sönnuð. Þessi regla getur þó aldrei náð lengra en til dómskerfisins enda augljóst að stundum er útilokað að færa óyggjandi sönnur á hvað nákvæmlega gerðist eða hver var að verki þótt ljóst sé að glæpur hafi verið framinn. Þar með er ekki um annað að ræða en að sýkna manninn, enda þótt bæði dómurinn og almenningur trúi öllu illu upp á hann, það er nefnilega ekki nóg að trúa, fyrir dómi er það sönnun sem gildir.