Fór með Sigrúnu á Tímavillta víkinginn og hitti gamlan vinnufélaga.
Skrýtið að sjá hann aftur. Meira en sex ár síðan við unnum saman og ég sem er ómannglögg og hitti oft fólk sem ég veit að ég þekki en kem samt ekki fyrir mig, hefði sennilega ekki þekkt hann ef ég hefði hitt hann af tilviljun á götu. Samt hefur hann ekkert breyst. Ekki að sjá að ein einasta hrukka hafi dýpkað eða bæst við. Kannski verður fólk sem vinnur alltaf á sama stað aldrei gamalt eða kannski er það bara þessi óvenjulegi velvilji og yfirvegun?
Nýr sérréttamatseðill. Eða kannski ekkert nýr, bara langt síðan síðast. Hann mælir með tagliatelle með rjómasósu og hvítlaukskrydduðum humri. Af hverju bjóða veitingahús ekki upp á kvennaskammta? Þeir yrðu að vera aðeins ódýrari en ég held samt að það myndi borga sig. Sjálfa langar mig oft í þrírétta máltíð en ég veit að ég verð of södd af forrétti til að ljúka aðalréttinum líka og þegar maður hefur borgað of fjár fyrir góða máltíð, ég tala nú ekki um ef einhver annar borgar, þá bara leifir maður ekki helmingnum og pantar svo súkkulaðiköku. Ég hugsa að veitingahús sem byðu upp á kvennaskammta, gætu selt mun fleiri konum bæði forrétt og eftirrétt.
Treð mig út af meiri mat en ég hef pláss fyrir og rifja upp fyrsta almennilega samtalið sem við áttum. Við höfðum unnið saman nokkrar vaktir og ég vissi þegar að hann var fullkominn starfskraftur og fullkominn starfsfélagi líka. Svo kom að því að við áttum eitt sæmilega rólegt kvöld. Við tókum pásu og hann spurði mig hvað ég hefði fengist við áður. Og ég sem vissi að hann var í herbalife kveikti á totryggnissírenunni. Bunaði út úr mér hverjum einasta vinnustað sem ég nokkurntíma hafði komið nálægt, allt frá skreiðarverkun eina viku þegar ég var 12 ára og að textagerð fyrir Ernst Backman um vorið. Setti svo upp órætt bros.
„Og eins og Dale Carnegie vinur okkar segir, þá finnst öllu fólki og þar með mér, þess eigin atvinnusaga vera áhugaverðasta saga sem sögð hefur verið, svo nú þegar ég er búin að fá útrás fyrir þörf mína til að tala um góftuskunar sem ég hef undið og stafsetningaræfingarnar sem ég hef leiðrétt, er alveg rétti tíminn til að segja mér hvernig fólk verður ríkt af tengslamarkaðssetningu.“
Ég átti von á að hann sneri sér burt með særðu augnaráði en hann horfði bara á mig með þessum ótrúlega hlýju augum.
„Þig langar ekkert að vera hér er það? Það hlýtur að vera ömurlegt að geta ekki unnið við það sem maður hefur köllun til“ sagði hann svo.
Viku síðar kom hann með litla gjöf handa mér. Bók með vísnagátum. Sagðist hafa heyrt mig og Bruggarann skiptast á lausnum á sunnudagskrossgátunni og séð það á blogginu mínu að ég hefði gaman af kveðskap.
Hann bauð mér aldrei í herbalife eða neitt sem því tengdist. Sennilega séð strax að ég væri ekki efni í sölumann.
Og nú sit ég hér, sex árum síðar. Ég hef veðrast, ekki hann. Ég hef aflað mér óvina, ekki hann. Lagt fjármálin mín í rúst, ekki hann. Ég er á sakaskrá, ekki hann. Ég gleymi afmælisdögum, ekki hann. Særi fólk með hvatvísi minni, ekki hann. Hann er mun geðþekkari en ég, betri manneskja en ég, hefur meira innsæi og býr yfir hugarró sem mig skortir. Og hann er hamingjusamari en ég, það er ég nokkuð viss um.
Samt finnst mér eitthvað skelfilegt við tilhugsunina um að vera í hans sporum.