Það er gott að elda. Og ég sem sé merkingu í öllu trúi því að það sé ekki tilviljun að elda rímar við gelda. Eins og ást við þjást.
Í gær eldaði ég ofan í 20 manns. Þegar ég kom heim með óhóflega mikinn afgang sat Maðurinn sem teiknar hugaróra á hafsbotni á dyraþrepinu. Mér datt í hug að bjóða honum inn í hvítvín og afganga en áttaði mig á merkilegri staðreynd:
Það er allt í lagi að bjóða einhverjum sem maður var einu sinni spenntur fyrir í afganga.
Það er allt í lagi að bjóða nágranna sínum í afganga þótt hann eigi kærustu sem maður þekkir ekki, ef ekkert daður hefur nokkurn tíma átt sér stað.
Það er hinsvegar ekki í lagi að bjóða einhverjum sem maður hefur einu sinni verið spenntur fyrir í afganga ef hann á kærustu sem maður þekkir ekki.
Ég veit ekki hvort hann á kærustu og ég spurði ekki. Hann hefði pottþétt misskilið það. Hann hefði haldið að skemmtilegheit hans snertu mig dýpra en sektarkennd mín yfir því að henda mat. Skemmtilegir karlmenn halda næstum alltaf að þeir séu áhugaverðari en þeir eru.
Ég hlýt að geta troðið afgöngunum upp á son minn hinn þverari. Ég geri mér engar grillur um að sá drengur eigi nokkurntíma eftir að vera beinlínis vinsamlegur við mig en það er ekki tilviljun að matur rímar við hatur. Drengur sem hefur matarást á móður sinni hlýtur að leggja sig fram um að hata hana þegar hann áttar sig á geldingunni sem fylgir því að vera tilfinningalega háður henni en ná samt ekki sambandi við hana nema í gegnum mat.
Ég skil Brie Van de Kampf, þegar hún reynir að elda burt erfiðar tilfinningar og þrífa burt vandamál. Ég líkist henni ekki en ég skil hana.
——————–
Þegar mér líður illa fer ég í gegnum alla skápa og geymslur og hendi useless past og present dóti. Hreinsar til í sálarlífinu í leiðinni.
Posted by: Sara | 16.05.2008 | 14:30:13