Ekkert í Islam sem réttlætir heiðursmorð

Kvennablaðið birti nýverið viðtal við Sverri Agnarsson, formann félags múslíma á Íslandi. Í framhaldinu ákváðum við að birta svör Sverris við nokkrum spurningum sem hafa verið áberandi í umræðu síðustu vikna. Hann hefur þegar skrifað um meint barnaníð Muhammads spámanns og í dag talar hann um heiðursmorð. Spurt er:

Heiðursmorð eru ein ástæðan fyrir andstöðu við Islam á Vesturlöndum. Hvernig er hægt að tala um Islam sem friðsöm trúarbrögð þegar menn drepa konur sínar og dætur af trúarástæðum?

Sverrir svarar:

Það er ekkert í Islam sem réttlætir heiðursmorð og Kóraninn nefnir þau hvergi. En auk þess þá er það ekki rétt að múslimar séu afkastameiri í kvennadrápum en aðrir.

Samkvæmt U.N. Population Fund, verða um það bil 5.000 konur fórnarlömb „heiðursmorða” í heiminum á ári, en tölfræði frá India’s National Crimes Record Bureau sýnir að 8.391 brúður – ein á klukkutíma, voru drepnar vegna heimanmundar þar í landi árið 2010. Af hverju þær tölur fara ekki inn í tölfræðina hjá Sameinuðu þjóðunum veit ég ekki.

En tölur Sameinuðu þjóðanna tákna ekki 5.000 múslímsk heiðursmorð, eins og margir heimildarmenn vilja meina, heldur að 5.000 konur og börn hafi verið myrt af sínum eigin fjölskyldumeðlimum, sem er ekki það sama. Konur myrtar af fjölskyldumeðlimum í BNA eru hluti af þessari tölfræði. Skýrslan segir að margar þessara 5.000 kvenna hafi verið fórnarlömb heiðursmorða, skýrslan segir ekki „allar“ og ekki heldur „flestar“. Hún segir að flest heiðursmorðin hafi verið framin í löndum þar sem múslimar eru í meirihluta en gerir enga tilraun til að meta hversu stór hluti þeirra er framinn þar.

Ég er ekki að reyna að gera lítið úr vandamálinu heldur bara að fara yfir tölfræðina. Heiðursmorð eru meiri háttar vandamál en það er ekki sértækt múslímskt vandamál og á alls enga stoð í Islam. Morð er morð og ekkert annað.

Skoðum þetta í samhengi og reiknum með að þessi  5.000 morð hafi öll verið framin meðal múslíma, sem er ekki rétt, því 1.000 eru indversk og önnur 1000 eru bandarísk (það er verið að tala um konur myrtar af fjölskyldum sínum). En reiknum samt með því að öll 5.000 morðin séu framin af múslímum. Samkæmt nýju mati frá “The Pew Forum on Religion and Public Life” þá eru 1.57 milljarðar múslima í heiminum (25% jarðarbúa) Notum það sem dæmi og fáum þá út að 3,2 konur af hverri milljón múslima eru drepnar af fjölskyldum sínum árlega.

Skoðum svo Bandaríkin. Samkvæmt FBI Expanded Homicide Data voru 14.180 morð framin í BNA árið 2008. Af þessum voru 930 konur og stúlkur myrtar af eigin fjölskyldumeðlim. Samkvæmt The Bartleby World Factbook for 2008 voru Bandaríkjamenn 301 milljón árið 2008. Samkvæmt þessu voru 3,1 kona af hverri milljón íbúa í BNA drepin af fjölskyldum sínum árlega. Munurinn milli BNA og múslímalandanna er tölfræðilega ómarktækur og snýst BNA verulega í óhag þegar við vitum að 2.000 af þessum 5.000 sem ég reiknaði á múslímana eru indversk eða bandarísk.

Kvennakúgun og kvennamorð eru alþjóðleg fyrirbæri. Í ljósi nýrra upplýsinga um að tugþúsundir barna séu föst í viðvarandi kynlífsþrælkun í Bandaríkjunum  myndi ég nú svipast um eftir ofbeldi víðar en í Mið-Austurlöndum. Svo vantar 60.000.000, jú sextíu milljón, stúlkubörn til að mannfjöldatölur stemmi á Indlandi, þau eru annaðhvort fjarlægð með frumstæðum fóstureyðingaaðferðum, drepin í fæðingu, eytt á einhvern hátt eða bornar út. Ef menn vilja gera eitthvað í málum kvenna er af nægu að taka.

Ég er ekki að réttlæta glæpi í múslímalöndunum með því að nefna þessi dæmi heldur benda á hversu brenglað það er að hata Islam fyrir eitthvað sem er vandamál alls heimsins, svo sem kynbundið ofbeldi.