Eitthvað þar á milli

Ég hef lesið margar bækur um þá list að verða sér úti um almennilegan kærasta. Stefnumótavefir þykja gott mál en þeir sem hafa fylgst með sápunni minni lengi vita að ég hef ýmsar ástæður til að efast um gagnsemi þeirra, allavega þeirra íslensku. Annað sem þykir vænlegt til árangurs er að brosa til huggulegra karlmanna í matvörubúðum. Oft hef ég þrammað skælbrosandi fram hjá einmanaréttahillunum í Nóatúnum, margar ferðir (þrátt fyrir andstyggð mína á matvörubúðum) án þess þó að ganga nokkru sinni þaðan út með mann upp á arminn.

Til að gera langa sögu stutta hef ég notað öll trixin í bókinni án árangurs en í lok september var ég svo ótrúlega heppin að rekast á verulega eigulegt eintak á bekkjarmóti. Mission accomplished, að vísu alveg óvart en það er aukaatriði. Nú er það næsti kafli; þegar rétt gaurinn er fundinn, hvernig býr maður þá til gott samband? Það mikilvægasta er að styrkja jákvæða hegðun, segir bókin. Nújá og hvuddnin gerir maður það? Það ætti ekki að vera flókið. Tíuþúsund trix eru í boði. Vandinn er sá að flest þeirra eru engin trix heldur bara almenn kurteisi og rökrétt viðbrögð.

Nú glími ég við það lúxusvandamál að minn ástkæri er stöðugt að gera eitthvað rétt. Og hvað gerir maður þá? Í dag færði hann mér t.d. jólastjörnu, sem verður að teljast afar jákvæð hegðun. Ég sagði nú bara takk en þegar hann var farinn fór ég að hugsa um að líklega væri þetta svona dæmi þar sem ég hefði átt að styrkja hegðunina. Ég er nefnilega hrifin af jólastjörnum og finnst óskaplega gaman að fá blóm en með mína færni í blómarækt verð ég að líkindum búin að drepa jólastjörnuna á næsta ári og vil þá gjarnan fá aðra. Og til þess að svo megi verða þyrfti ég náttúrulega að drífa í því strax að styrkja hegðunina ‘að kaupa jólastjörnu handa elskunni sinni.’ Ég var hinsvegar algerlega hugmyndalaus um hvað ég hefði getað gert til þess. Kyssa hann? Jú ég gerði það náttúrulega en ég hefði gert það hvort sem er, jafnvel þótt hann hefði ekki komið með neina jólastjörnu. Hvað annað hefði ég átt að gera? Æpa af gleði? Hoppa? Tárfella? Einhvernveginn hef ég á tilfinningunni að það yrði frekar til þess að hann forðaðist blómabúðir framvegis. Gefa honum eitthvað í staðinn? Hvern andskotann þá? Páskaliljur kannski? Naaaaaa… blóm virka bara einhvernveginn öðruvísi á konur en karla.

-Gott sex virkar alltaf,
sagði vinur minn þegar ég spurði hann hvernig væri best að styrkja jákvæða hegðun karlmanns. Það hljómar nú svosem eins og bráðskemmtileg aðferð en ekki gat ég skverað manninn á búðarborðinu. Auk þess sé ég fyrir mér að ef ég ætli að beita þessu trixi í hvert sinn sem hann gerir einmitt það sem ég vil, verði ég orðin sigggróin um áramót og þar fyrir utan þá verðum við fyrr eða síðar að mæta í vinnuna og jafnvel sofa pínulítið af og til.

Ég er næstum viss um að hann langar ekkert í blóm. Hann er svona meira fyrir mótorhjól en ég á ekki fyrir því. Auk þess yrði það áreiðanlega frekar mikið bögg fyrir hann ef ég kæmi með nýtt mótorhjól á hverjum degi og ekki vil ég gera Harley afbrýðisaman.

Það hlýtur að vera til kærastauppeldisaðferð sem er áhrifaríkari en eitt lamað takk og raunhæfari en nýtt mótorhjól. Ég læt ykkur vita þegar ég er búin að finna hana.