-Hvers konar tilfinningar berðu þá til hans? spyr Lærlingurinn og það er von að hann spyrji. Í skilgreiningaróðu samfélagi sem samt sem áður viðurkennir aðeins eina tegund tilfinningatengsla milli manns og konu, fer ekki hjá því að fólki þyki undarlegt að maður elski einhvern mjög mikið en þarfnist samt tengsla við einhvern gerólíkan honum.
Sannleikurinn er sá að sálufélag er engin trygging fyrir góðri sambúð. Mig langar ekki einu sinni að búa með honum, ég er bara pirruð á því að hann skuli líta á mig sem leyndarmál. Við höfum nefnilega ekki neinu að leyna.
Elska ég hann. Já, sannarlega. Návist hans er brunabílsrauð kasmírpeysa. Hamingja hans skiptir mig máli. Ég finn til sorgar ef eitthvað angrar hann. Ef einhver skaðar hann mun ég hefna hans. En þótt manni þyki rúsínukökur góðar, þarf maður ekki endilega að éta sér til óbóta.
–
Hann ólst upp hjá tveimur konum sem hann elskaði út af lífinu.
Önnur var kletturinn í hafinu, traust, hrjúf og óhagganleg. Hún hélt uppi reglulegum matmálstímum, sá til þess að heimaverkefni væru unnin, steikti pönnukökur á sunnudögum og kom honum í rúmið á réttum tíma á kvöldin. Hún klæddi hann í óþægilegar terelínbuxur fyrir litlu jólin og lét org, tár og rökræður ekki hafa minnstu áhrif á sig, frábauð sér villimannslega leiki og bannaði honum að segja ljótt. Hún var kannski ekki beinlínis skemmtileg en hún var alltaf til staðar.
Hin kom og fór. Hann dýrkaði hana. Kannski af því að hún þarfnaðist hans jafn mikið og hann hennar. Hún lék við hann, söng með honum, dró hann á snjóþotu og las fyrir hann á kvöldin. Hún leyfði honum að borða yfir sig af súkkulaðiköku, kyssti á bágtið ef hann meiddi sig og stundum sagði hún ljótt með honum þegar móðir hennar heyrði ekki til. Svo fór hún og var stundum lengi í burtu. Hann naut hverrar stundar með henni en þegar hún þurfti að sjá um hann ein í nokkrar vikur, fór einhvernveginn allt í vitleysu. Hann orgaði, sparkaði og varð nánast óviðráðanlegur, allt þar til heimilislífið féll í réttar skorður aftur, með öllu því þrautleiðinlega öryggi sem endurkoma yfirvaldsins hafði í för með sér.
Þegar hann varð fullorðinn fann hann sig í svipuðu mynstri. Hann á sinn klett í hafinu og það er grundvöllur tilveru hans. Það merkir samt ekki að hann þarfnist mín ekki líka.
Hann var litli bróðir, angakrílið og prinsinn.
Ég ólst upp sem stóra systir. Ég stórnaði systkinum mínum með harðri hendi og spillti þeim með eftirlæti á víxl. Ég stjórnaði, réði og bar ábyrgðina, vann flest heimilisstörfin, vakti þau á morgnana og hjálpaði þeim að læra. Svo varð ég móðir og það er nokkurn veginn eins. Mér líkaði þetta hlutverk ágætlega meðan drengirnir mínir voru litlir en nú vil ég það ekki lengur.
Mig vantar ekki klett í hafi, ég hef verið minn eigin klettur frá 10 ára aldri og farnast það vel en hér er berangurslegt á köflum og lítið um mosa. Ég þarf skemmtilegan félagsskap og tilfinningalega nánd. Hann er mér hvorttveggja en ekki daglega og ég þarf meira. Ég þarf maka. Einhvern til að deila lífinu með. Einhvern til að deila rúmi með. Jafningja.
Praktíska hliðin dugar hverjum sem þekkir okkur til að sjá glóruleysið í hefðbundinni sambúð. Við borðum ekki sama mat, hlustum ekki á sömu tónlist og horfum ekki á sama sjónvarpsefni. Hann fer aldrei í leikhús, myndi ekki lesa ljóð þótt hann fengi greitt fyrir það og ég hata fótbolta, tölvuleiki og fullar geymslur af biluðum hlutum sem á að gera við seinna.
Stóra málið er samt það að þrátt fyrir dálæti mitt á honum, gæti ég ekki litið á hann sem jafningja. Ég myndi ekki treysta honum fyrir fjármálunum, ég myndi vekja hann í vinnu á morgnana og ekki reikna með að hann tæki úr þvottavélinni óbeðinn. Og honum þætti það alveg ágætt. Mér þætti það hinsvegar ekki og fljótlega myndi ég meðvitað hætta að hegða mér eins og mamman á heimilinu. Og þá fær allt í vitleysu.
Og þá tæki hann upp á því að hegða sér eins og umskiptingur og svo hann færi heim til konunnar sinnar aftur.