Eiga tilfinningarök rétt á sér?

haenur

Um daginn skrifaði Kristinn Theódórsson pistil um tilfinningarök í tengslum við vændisumræðuna og nú bætir Einar Karl Friðriksson um betur og ræðir tilfinningarök út frá nytemissjónarmiði.

„Tilfinningarök“ eiga vissulega rétt á sér. Ef út í það er farið eru hugmyndir um mannhelgi og ýmsar aðrar siðferðishugmyndir ekkert annað en tilfinningarök. Ofbeldi er praktíst og það má vel færa hagsældarrök fyrir því að best sé að útrýma ákveðnum hópum, svo sem fötluðum, sjúkum og sjálfstæðismönnum. Sem betur fer telja flest okkar að þar vegi tilfinningarökin þyngra. Það er hinsvegar mikilvægt að gera sér grein fyrir forsendum tilfinningaraka, rétt eins og forsendum nytsemisraka. Er forsendan fyrir því að við banna einhverja hegðun sú að hún skaði fólk sem ekki getur borið hönd yfir höfuð sér eða er hún sú að fyrst mér finnst eitthvað ógeðslegt, þá eigi öllum öðrum að finnast það líka? Í síðara tilvikinu væri kannski réttara að tala um sjálfhverfurök.

Auðvitað truflar kynlífsþjónusta fólk meira en viðurkennd störf sem þykja ekki fín, þ.e.a.s. á meðan hún er ekki viðurkennd. Á sínum tíma truflaði það líka smáborgarann að vita af konum í karlastörfum. Útgáfa efnis þar sem gert var grín að trúmálum truflaði fólk og gerir það sumsstaðar enn. Í ríkjum múslima myndi það trufla fólk verulega ef konur tækju upp á því að krefjast þess að fá aðgang að kaffihúsum. Það að banna eitthvað á þeirri forsendu að það trufli rétthugsandi teprur, eru afleit rök. Sjálfhverfurök.

Einar Karl tekur leigubílaakstur sem dæmi um starfsemi sem hömlur eru settar á, með þeim rökum að það sé „til góðs“. Þessi samlíking er ekkert sérstaklega góð þar sem engin siðferðisrök sem liggja að baki takmörkun á fjölda leigubíla í umferð, heldur hagsmunarök. Ástæðan fyrir því að menn þurfa sérstakt leyfi til að aka leigubíl er ekki sú að tilvera leigubílstjóra ýti við hneyslunargirni almennings, blygðunarsemin er hinsvegar í parxís aðal röksemdin fyrir banni við kynlífsþjónustu (það er út í hött að tala um að starfsemi sé leyfð á meðan kaup á henni eru bönnuð) þótt í orði sé verið að sporna gegn misnotkun á fólki. Ég hef áður nefnt tvískinnunginn í því að banna nektardans en fallast á að Geiri gullrass fái að halda „fórnarlömb“ svo fremi sem hann sér til þess að dömurnar haldi nærbrókunum upp um sig.

Mér sýnist helst að markmið Einars Karls sé það að smætta muninn á tilfinningarökum og nytsemisrökum. Það er í sjálfu sér alger óþarfi, því þegar fólk gagnrýnir „tilfinningarök“ þá á það yfirleitt ekki við að siðferðisspurningar eigi ekki rétt á sér, heldur að persónulegur smekkur manna hafi ekkert vægi í rökleiðslu. Það eru t.d. frekar veik rök hjá umhverfissinna að vilja ekki leggja svæði undir stóriðju af því að það sé að hans mati svo fallegt. Á sama hátt var það alger skandall hjá Siv Frileifsdóttur að samþykkja Kárahnjúkavirkjun út á þau tilfinningarök að hún sæi enga sérstaka fegurð á svæðinu. Hinsvegar eru það ágæt tilfinningarök að óafturkræfar breytingar á náttúrusvæði séu ekki einkamál auðvaldsins þar sem lífríkið hafi áhrif á okkur öll og komandi kynslóðir.

Auk þess má deila um það hvort takmörkun á fjölda leigubíla er „til góðs“, það er allavega enginn algildur og ævarandi sannleikur. Ef á að banna eitthvað á þeirri forsendu að bannið sé „til góðs“ þá þarf bæði að útskýra hvað átt er við með „til góðs“ og færa rök fyrir því að bann þjóni þeim tilgangi í raun. Forræðishyggjufólk getur þannig ekki komist hjá því að færa rök fyrir máli sínu með því að dulbúa sjálfhverfurök sem nytsemisrök.

Ef út í það er farið eru rökin „viltu að barnið þitt geri það?“ til þess fallin að fordæma hvaða kynferðisathöfn sem er. Vilt þú t.d. að börnin þín láti bólfélaga sína „hnefa sig“ og setja á sig geirvörtuklemmur? Eða er eitthvað athugavert við spurninguna sjálfa? Finnst þér kannski bara ekkert viðeigandi að þú myndir þér skoðun á því hvað börnin þín gera á þeim sviðum tilveru sinnar sem þér er ekki boðinn aðgangur að? Ef svo er, þá byggist sú skoðun á tilfinningarökum sem eiga að mínu viti fullan rétt á sér, þeim rökum að fullorðið fólk eigi rétt á því að stjórna sínu kynlífi sjálft, án afskipta foreldra sinna, stóru systur eða annarra yfirvalda, kjörinna eða sjálfskipaðra.

Auðvitað mætti takmarka fjölda löglegra vændiskvenna við núll á þeirri forsendu að það sé til góðs að sauðmúginn komist hjá því að horfast í augu við tepruna á sér. Á sama hátt mætti banna „hnefun“ og geirvörtuklemmur á þeirri forsendu að það sé til góðs að foreldrar viti að ef uppkomin börn þeirra stunda slíkar athafnir þá sé allavega hægt að dæma þau til refsingar fyrir það. En það eru sjálfhvefrurök. Vonandi hafna þeim sem flestir.