Einu sinni leigði ég hjá konu sem vildi ekki greiða skatt af leigutekjunum sínum. Það verður líklega seint talið til stórglæpa en engu að síður er það og var einnig þá, ólöglegt. Í raun ekkert annað en þjófnaður þótt flestir hafi líklega meiri samúð með stórskuldugri láglaunamanneskju en fórnarlambi glæps hennar, ríkinu.
Þetta var fyrir daga húsaleigubóta og þótti í lagi. Allavega gerði ég enga athugasemd við þetta fyrirkomulag. Ég gerði mér þó ekki grein fyrir því hvað sumum finnast skattsvik fullkomlega sjálfsögð og eðlileg, fyrr en ég mætti til að undirrita leigusamninginn. Í honum stór, með hástöfum svo það væri nú alveg a hreinu; LEIGAN SKAL EKKI GEFIN UPP TIL SKATTS.
Ég leit vandræðalega á væntanlegan leigusala minn og sagði;
– Ég skal ekkert gefa þetta upp enda græði ég ekkert á því en þetta er náttúrulega ólöglegt, þannig að kannski viltu síður hafa það skriflegt?
En konan sat við sinn keip. Hún þekkti konu sem hafði lent í leigjanda sem gaf hana upp og hún ætlaði sko bara að hafa réttinn sín megin. Það væri ekkert persónulegt.
Ég kyngdi flissinu og undirritaði samninginn. Mér fannst sjálfsagðara að taka þátt í lögbroti en kjánaskap svo sennilega var líka eitthvað mikið að mér.
————————
Hahaha, væri gaman að vita hvernig samningurinn hefði staðist fyrir dómi.
eða kannski ekki…
Posted by: hildigunnur | 1.04.2008 | 19:29:50