Ég misskildi séra Baldur

Í fyrri færslum mínum gagnrýndi ég það frumhlaup Séra Baldurs Kristjánssonar að greina opinberlega frá viðkvæmu máli án samráðs við þolanda, fyrst í líkræðu og svo á blogginu sínu. Ég sé ekki betur en að þessi vinnubrögð séu brot á þagnarskyldu. Ég tek fram að ég gagnrýni ekki þá ákvörðun prestsins að tilkynna málið til yfirvalda enda þótt það sé fyrnt og hverfandi líkur á að það leiði til þess að upp komist um gerandann. Þvert á móti held ég að það sé gott að sem mestar upplýsingar um mál af þessu tagi séu til í kerfinu. Það sem mér finnst athugavert er það að hann skuli fjalla um málið opinberlega, með persónuupplýsingum sem benda á þolandann.

Annað sem mér finnst umhugsunarvert er að þótt þessi uppákoma sé á yfirborðinu fullkomin andstæða við hefðbundna yfirhylmingu kirkjunnar með kynferðisbrotamönnum, þá er gjörningur Baldurs aðeins önnur birtingarmynd þeirrar hugmyndar að kirkjan sé yfirvald, að það sé í hennar verkahring að taka á glæpamálum.

Svör Baldurs eru á þá leið að ég þekki ekki málið, þekki ekki störf presta, þetta sé dæmigerð líkræða, þagnarskylda hafi ekki átt við í þessu tilviki og að ég vilji þagga niður kynferðisofbeldi og hylma yfir með glæpamönnum. Ég hef nefnt nokkur önnur dæmi um viðkvæm mál sem mér þætti fráleitt að gera opinber án samráðs við þolanda og beðið Séra Baldur að taka afstöðu til þeirra en hann svarar því ekki öðru en að hann líti á skrif mín sem ‘vaðal’. Nú sé ég á umræðunum á DV að Baldur hefur komist að þeirri niðurstöðu að ég sé að misskilja málið.

Gott og vel, ég hef misskilið þetta, það er í sjálfu sér mjög gott því mynd mín af þessu máli er engin stofuprýði. Gott semsagt að þetta var bara misskilningur þótt mér finnist í hégóma mínum dálítið súrt að þurfa að láta í minnipokann. Ég er nefnilega þannig gerð að mér er meinilla við að hafa rangt fyrir mér og þegar ég átta mig á því að ég hef misskilið eitthvað, finn ég fyrir dálítilli gremju, það er hundleiðinlegt að átta sig á því að maður hefur haft rangt fyrir sér. En einmitt þessvegna, vil ég helst leiðrétta misskilninginn sem fyrst svo ég geti séð málið í réttu ljósi, skipt um skoðun og hætt að hafa rangt fyrir mér. Það er skömminni skárra að þurfa að viðukenna að maður hafi hlaupið á sig en að ganga með rangar hugmyndir í kollinum um langa hríð. Ég bið því Séra Baldur hér með að útskýra fyrir mér í hverju nákvæmlega, misskilningur minn liggur.

Kæri Séra Baldur

1. Þú virðist telja að ég misskilji hugmyndir um þagnarskyldu.
Hversvegna á þagnarskylda ekki við um þetta mál? Hvar er að finna í lögum og/eða siðareglum presta upplýsingar um það hverskonar aðstæður aflétti trúnaðarskyldu af presti, að því marki að honum sé frjálst að ræða mál skjólstæðinga sinna opinberlega án samráðs við þá?

2. Þú telur að skoðun mín byggist á vanþekkingu á störfum presta og líkræðum.
Fyrst þetta er dæmigerð líkræða, geturðu nefnt eitt dæmi frá Íslandi þar sem jafn viðkvæmt mál er gert að þungamiðju í líkræðu án samráðs við þolanda? Geturðu nefnt eitt land í veröldinni þar sem það tíðkast?

3. Þú telur að ég misskilji hugmyndina um upplýsingarskyldu og sjái ekki nauðsyn þess að svipta hulunni af glæpnum.
Lítur þú svo á að starfsfólk Stígamóta, Kvennaathvarfsins og Barnaverndaryfirvalda, sem aldrei nokkurntíma ræða persónuleg mál skjólstæðinga sinna í fjölmiðlum án samráðs við þolendur, séu með þeirri stefnu sinni að þagga ofbeldismál niður eða hylma yfir með glæpamönnum?

Ég vonast til að fá greinargóð svör sem fyrst, bæði vegna þess að hafi ég misskilið eitthvað, þá vil ég leiðrétta misskilninginn en einnig vegna þess að ég vil fá það á hreint hvort ég geti átt von á því þegar ég mæti í jarðarför, að vera á þeim vettvangi, við aðstæður þar sem fólk er gjarnan yfirþyrmt af sorg, upplýst um dýpstu leyndarmál vina minna og vandamanna. Ég er nefnilega þrátt fyrir trúleysi mitt, sammmála gaurnum sem skrifaði Predikarann um að sérhver hlutur undir himninum á sinn stað og stund. Jarðarfarir eru í mínum huga staður og stund til að sættast við sorgina, ekki staður og stund til að verða fyrir nýjum áföllum.

 

 

One thought on “Ég misskildi séra Baldur

  1. ————————————-

    Ég sé ekki betur Eva en að þú sét búin að jarða Séra Baldur.

    Og búin að setja líkræðuna á netið! 😀

    Gott hjá þér.

    Posted by: Þorsteinn Úlfar Björnsson | 8.07.2011 | 13:47:09

Lokað er á athugasemdir.