Ég get að minnsta kosti meitt sjálfa mig

selfharm

Undanfarið hef ég beint sjónum mínum að unglingum sem skaða sjálfa sig, ýmist með hættulegum megrunaraðferðum eða með því að veita sjálfum sér áverka. Viðmælandi minn er 15 ára stúlka. Hún byrjaði að skera sig þegar hún var 13 ára og er með ör eftir skurði víða um líkamann.

Aðferð til að stjórna tilfinningum


cuteFyrsta spurningin sem vaknar er þessi: hvað gengur krökkum til með því að skaða sjálfa sig?

Það er kannski ekkert svar sem á við um alla en þeir sem gera þetta líður venjulega illa. Maður sækist þá eftir sársauka, kannski að einhverju leyti af því að það tekur athyglina frá því sem maður er að hugsa um. Þegar maður finnur til þá leysir heilinn endorfín og þótt það sé ekki víma eða einhver dásamleg vellíðan sem fylgir því þá líður manni kannski aðeins skár. Stundum er það líka meira en sársaukinn sem fær fólk til að skaða sjálft sig. Sumir sækjast eftir því að sjá blóð.

Þú talar um að unglingum sem skaða sig líði illa. Eru þetta þá krakkar sem eiga við mikil vandamál að stríða?

Þunglyndi getur lagst á fólk sem á ekki við meiri vandamál að stríða en hver annar.

Það er bara misjafnt. Manni getur liðið illa þótt aðrir sjái ekki að það sé neitt að sem skýrir það. Þunglyndi getur lagst á fólk sem á ekki við meiri vandamál að stríða en hver annar. Þeir sem gera þetta búa við allskonar mismunandi aðstæður, það er kannski frekar að þessir krakkar eigi það sameiginlegt að ráða ekki við þær tilfinningar sem þeir eru að glíma við. Þegar maður kallar fram líkamlegan sársauka þá er það eitthvað sem maður getur stjórnað. Ég held að þetta sé oft aðferð til þess að finnast maður hafa einhverja stjórn á tilfinningum sínum. Maður er kannski að taka út á sjálfum sér tilfinningar sem beinast að einhverjum öðrum. Hugmyndin er eitthvað á þá leið að þótt ég geti ekki meitt þann sem á það skilið þá geti ég að minnsta kosti meitt sjálfa mig.

Fáránlegt þegar sjálfsköðun verður trend


dni-clifford-688x451Ég hef heyrt þá kenningu að stelpur sem skaða sjálfar sig séu oftast hæfileikaríkar stelpur frá góðum heimilum, það sé ekkert sérstakt að hjá þeim og þær þjáist aðallega af athyglissýki. Hvað finnst þér um þá hugmynd?

Það er náttúrulega til en flestir, að minnsta kosti þeir sem ég þekki, eru ekki að sækjast eftir athygli. Þvert á móti þá felum við áverka. Þetta er ekki eitthvað sem maður er stoltur af og mann langar ekki að vera fyrirmynd að þessu leyti. Kærastinn minn tók upp á þessu þegar hann komst að því að ég gerði þetta og mér finnst það hrikalega leitt. Og það er einmitt kannski rétt að benda á það að þótt stelpur séu í meirihluta þá er líka til fullt af strákum sem skaða sig. Ég gæti trúað að þeir leiti síður hjálpar en stelpurnar. Strákar gleymast oft í þessari umræðu.

Þetta er ekki eitthvað sem maður er stoltur af og mann langar ekki að vera fyrirmynd að þessu leyti.

Til eru netsamfélög þar sem flestir þátttakendur eru ungt fólk sem finnst þetta allt í lagi. Þessir krakkar eru að styðja hver annan, ekki til að hætta, heldur til að halda áfram. Þarna eru t.d. spjallþræðir þar sem verið er að ræða hvaða verkfæri séu heppileg og notendur deila myndum af áverkum. Fyrir mér lítur þetta út eins og einhverskonar költ. Þekkir þú til svona hópa?

Ekki svona hópa sem finnst þetta í lagi nei, en ég á vini sem skaða sig. Það er með þetta eins og allt annað, að sækjast sér um líkir. Það gerist ekki meðvitað en þegar maður á svona leyndarmál þá laðast maður ósjálfrátt að þeim sem gera eitthvað svipað af því að maður vill tala við einhvern sem skilur mann. Það er líka bara erfitt að eiga vini sem skilja ekki vanlíðan, að manni geti liðið illa yfir litlu sem engu og að ákveðnir hlutir séu kannski óþarflega erfiðir. Þegar vinur manns er mun hamingjusamari en maður sjálfur þá kannski finnst manni að maður eigi ekki eins margt sameiginlegt með honum og með þeim sem skilja mann betur. Manni líður eins og maður sé öðruvísi og finnur fyrir smá útilokunarkennd þegar maður er sá eini sem líður illa.

En í mínum vinahópi hefur þetta ekki verið álitið eitthvað flott eða eitthvað til að metast um heldur höfum við áhyggjur hvert af öðru og reynum að fá hvert annað til að hætta. Maður ætlar samt ekkert að hætta sjálfur heldur bara að hafa vit fyrir hinum. Mér finnst alveg fáránlegt þegar sjálfssköðun verður trend. Ég hef skoðað svona síður og mér finnst þetta vera sjúkt og spillt. Það er verið að upphefja alvarlegt vandamál og gefa ranga mynd af því. Það sama má segja um „pro-ana“ síðurnar.

Hefur þú tekið þátt í svona spjallsíðum?

Það triggerar þessa áráttu að hugsa of mikið um hana.

Nei, ég hef skoðað þær en mér finnst þetta ekki í lagi. Ég féll reyndar sjálf í þá gildru að ætla að takast á við lífið með því að blogga um sjálfssköðun. Ég hugsaði um bloggið sem vettvang til að tjá tilfinningar mínar og hugsanir. Það virkaði hinsvegar öfugt. Mér leið bara verr eftir því sem ég skrifaði meira og fór þá að skera mig oftar. Svo þegar ég fór að setja inn allskonar öðruvísi færslur þá tók ég eftir því að mér leið betur. Þetta er dálítill vítahringur. Það triggerar þessa áráttu að hugsa of mikið um hana.

Þrír skurðir saumaðir

Manstu hvað varð til þess að þú tókst upp á því að skera þig?

Ég hafði séð þetta á netinu og hugsaði sem svo að ég myndi bara prófa þetta einu sinni.

Ég hef, alveg frá því að ég var lítil, brugðist við erfiðum tilfinningum með því að meiða mig. Ekki skaða mig samt heldur kalla fram vægan sársauka, t.d. með því að rífa í hárið á mér eða klípa mig. Margir bregðast við stressi og kvíða á þennan hátt og það er kannski ekkert óeðlilegt, allavega sér maður væg afbrigði af því í kringum sig, það eru bara viðbrögð sem valda ekki áverkum. Svo þegar ég var 13 ára þá leið mér einu sinni mjög illa og þá skar ég mig í fyrsta sinn. Ég hafði séð þetta á netinu og hugsaði sem svo að ég myndi bara prófa þetta einu sinni. En það er bara ekki þannig sem það virkar. Þegar maður kemst upp á lag með þetta fer maður að gera það oftar og oftar, þetta verður eins og hver önnur fíkn.

Vissu foreldrar þínir af því að þú ættir það til að skaða sjálfa þig?

Ég var farin að skera mig næstum daglega.

Mamma tók eftir þessu en í fyrstu vissi hún ekki hvað ég gekk langt. Hún á vinkonur sem gerðu þetta á tímabili en hættu því svo bara og þegar hún sá áverka á handleggnum á mér hélt hún fyrst að ég myndi bara hætta þessu ef hún léti það afskiptalaust. Svo fór fjölskyldan að átta sig á því að þetta var slæmt. Ég var lögð inn á BUGL, ekki beinlínis út af þessu en þetta var eitt þeirra einkenna sem fólk hafði áhyggjur af. Ég var farin að skera mig næstum daglega og á endanum þurfti ég að fara upp á slysavakt og láta sauma skurð.

cut

Það hljómar nú eins og eitthvað alvarlegra en smárispa ef hefur þurft að sauma þig. Hafðir þú aldrei áhyggjur af því sjálf að þú gætir skaðað taugar eða sinar eða fengið slæmar sýkingar?

Sko, þetta er kannski ekkert ólíkt alkóhólsma að því leyti að maður blekkir sjálfan sig. Flestir vina minna skaða sjálfa sig og þegar maður þekkir marga sem gera það þá fer manni að finnast það eðlilegt. Ég hafði áhyggjur af vinum mínum en ekki sjálfri mér. Ég hélt að það væri allt annað með mig af því að ég vissi hvað ég væri að gera. Svo fer maður smátt og smátt að ögra sjálfum sér, ganga lengra, skera dýpra eða á nýja staði. Ég gerði mér ekki einu sinni grein fyrir því sjálf hvað þetta var slæmt fyrr en ég var allt í einu komin með skurð sem var það ljótur að ég varð hrædd og fór að hafa áhyggjur af því að það þyrfti kannski að sauma hann. Þegar ég kom upp á slysadeild kom í ljós að það þurfti ekki bara að sauma þann skurð heldur líka tvo aðra sem ég hafði ekki haft áhyggjur af.

Þykir ekki vænt um líkama sinn

Þú segist þekkja marga sem skera sig. Maður heyrir samt ekki fréttaflutning af einhverjum sjálfskaða-faraldri. Heldurðu að sé algengt að krakkar skaði sig svo illa að þeir þurfi læknisaðstoð?

Nei. Oftast eru þetta bara grunnar rispur. Maður er ekki að reyna að drepa sig heldur að sækjast eftir sársauka. Það er líka ótrúlega erfitt að skera djúpt. Eins og eitthvað í undirvitundinni stoppi mann af þannig að maður þarf virkilega að einbeita sér að því að ganga lengra. En sjálfsköðun er alltaf slæm og þótt þetta byrji bara með grunnum rispum þá getur þetta auðveldlega farið úr böndunum. Það var það sem gerðist hjá mér.

Varstu stoppuð af eftir þetta?

Það er ekkert hægt að stoppa fólk sem ætlar að skaða sig en ég var send í neyðarviðtal á BUGL og síðar lögð inn.

Breytti það einhverju?

Maður hættir ekki af því að einhverjum öðrum finnist þetta vera slæmt eða fáránlegt heldur af því að manni fer að líða betur.

Já en það gerist ekki þannig að manni sé bara sagt að hætta. Maður hættir ekki af því að einhverjum öðrum finnist þetta vera slæmt eða fáránlegt heldur af því að manni fer að líða betur. Það getur bara kallað fram mótþróa ef einhver ætlar að þvinga mann til að hætta. Maður hugsar „þetta er minn líkami og ég geri við hann það sem mér sýnist.“

En er það ekki dálítið sérkennileg afstaða að halda dauðahaldi í rétt sinn til að skemma líkama sinn?

teygjaKannski er það skrýtið en málið er að þeim sem skaða sjálfa sig þykir ekki vænt um líkama sinn, þannig að það er ekki nóg að útskýra að þetta sé hættulegt. Maður getur meira að segja sokkið svo djúpt að manni verður bara skítsama þótt fari svo illa að maður verði fyrir varanlegum skaða eða drepi sig á þessu. Meðferðin á BUGL gengur ekki út á það að reyna að ala mann upp heldur eru manni kenndar aðrar aðferðir til að takast á við lífið. Læknar vita alveg að sumir munu halda áfram og eitt af því sem mér finnst mjög gott er að okkur eru kenndar skaðaminnkandi aðferðir. Eins og til dæmis að setja teygju um úlnliðinn og toga í hana þannig að hún smelli á hörundinu. Það veldur sársauka en er ekki hættulegt.

Eins og hver önnur fíkn


same1En er það rétt skilið að þú hafir hætt eftir meðferðina á BUGL?

Já en ég tók ekki meðvitaða ákvörðun um að hætta. Aðstæður mínar höfðu breyst. Ég gisti mikið hjá ömmu minni og ég hafði það ekki beint í mér að gera ömmu minni þetta. Svo var ég farin að vera með strák og vildi kannski ekki mæta til kærastans með fullt af opnum sárum. Ég veit samt að það mun koma að því að mig langi til að skera mig.

Hvað heldurðu að gerist ef það kemur yfir þig? Muntu leita hjálpar?

Ég veit samt að það mun koma að því að mig langi til að skera mig.

Nei. Ef mér færi að líða mjög illa þá myndi ég tala við vinkonu mína en ég myndi ekki segja henni að ég væri að fara að skera mig.

En myndir þú hafa samband við BUGL eða sálfræðing?

Nei. Ég myndi náttúrulega gera það ef ég væri farin að skera mig oft en ekki ef ég gerði það bara í eitt skipti. Ég hugsa að þegar kemur að því að ég vilji skaða mig þá reyni ég að nota betri aðferðir, frekar en að leita hjálpar.

Hvað myndir þú ráðleggja krökkum sem líður illa og langar til að meiða sig?

Bara að taka ekki það skref að prófa aðferðir sem valda skaða. Það er nefnilega ekkert víst að það verði bara eitt eða tvö skipti þótt maður haldi það í fyrstu. Þetta verður fíkn svo það er bara best að byrja aldrei á þessu.