Ég fíla málfarstísku – í hófi

Íslenskan einkennist af notkun framsöguháttar en nú er í tísku að nota nafnhátt hvar sem því verður viðkomið. Útkoman verður orðalag á borð við “ég er ekki alveg að skilja þetta”, “þeir eru að spila óvenju vel”, “hann er ekki að fíla þetta” o.s.frv. Mér finnst ekkert athugavert við að nota slíkar setningar að ákveðnu marki. Í hófi skapa þær ný blæbrigði í málinu. “Ég er ekki að skilja þetta” er ekki kannski eins endanlegt og “ég skil þetta ekki.” Fyrri setningin býður upp á möguleika á þeirri túlkun að skilningsleysið kunni að vera tímabundið ástand.

Ég vona þó innilega að þessi tíska yfirtaki ekki hefðbundna notkun framsöguháttar. Þótt tískusveiflur kunni að eiga rétt á sér í hversdaglegu talmáli er samt viðeigandi að fjölmiðlar, fyrirtæki og stofnanir sýni dálitla íhaldssemi í málnotkun. Mér finnst t.d. óviðeigandi að nota orðalagið “er bankinn þinn ekki að veita þér góða þjónustu?” í auglýsingu. “Veitir bankinn þinn þér ekki góða þjónustu?” er ágætis íslenska og skilaboðin hin sömu.