Þegar ég var krakki efaðist ég um tilvist guðdómsins. Samt áleit ég að Jesús væri soldið góður gæi. Fannst töff hjá honum að ganga berserksgang þegar kaupmennirnir lögðu musterið undir sig og snjöll redding að gjalda keisaranum það sem keisarans er. Reyndar held ég í dag að ég hafi fyrst og fremst hrifist af þessu sandalahippa útliti sem listamenn hafa gefið honum því þótt ég væri í aðra röndina skotin í honum, fannst mér margar af biblíusögunum benda til þess að réttlætiskenndin væri eitthvað á reiki hjá honum blessuðum.
Ég man t.d. þegar ég var 10-11 ára og las söguna um tollheimtumanninn og Faríseann. Ég hitnaði í vöngum af blygðun þegar ég áttaði mig á því að samúð mín var með Faríseanum. Hélt fyrst að það hlyti að vera eitthvað athugavert við mig.
Ég var semsagt Farísei. Pabbi minn og bræður hans höfðu verið í millilandasiglingum og mín mynd af tollheimtumanni var viðbjóðslegt sníkjudýr sem ruddist niður í skipin, gramsaði í eigum sjómanna og gerði upptækt ýmiskomnar fínerí sem þeir höfðu keypt í útlöndum. Ég vissi að það mátti eiginlega ekki taka með sér vörur til landsins nema borga aukalega en ég vissi líka að „tollarakvikindin“ tóku góssið sjálfir og fóru með það heim. Þeir máttu það ekki en sjómennirnir sögðu ekkert því þá hefðu þeir þurft að borga sekt. Ég sá tollarakvikindin fyrir mér, bera með sér heim fulla kassa af suðrænum ávöxtum, blævængjum, þjóðbúningadúkkum, sælgæti og skartgripum. Brennivín og tóbak var ekki inni í myndinni, enda varð ég þess ekki vör að pabbi kæmi með slíkt úr sínum ferðum.
Ég skildi Faríseann. Var sjálf dauðfegin að líkjast ekki þeim sem ég flokkaði sem skítakaraktera. Ég leit t.d. niður á heimtufreka krakka sem höfðu sitt fram með óþekkt og dónaskap. Öllu meiri var þó fyrirlitning mín á börnum sem fóru illa með dýr. Mér fannst reyndar margir krakkar vera lítilmótleg skítseiði og hafði oft lofað sjálfri mér því að verða aldrei eins og tiltekin börn sem ég þekkti. Tollarakvikindin setti ég í hóp með þjófum, fylliköllum, dýraníðingum og götustrákum og -stelpum sem reyktu og hrekktu smábörn.
Eftir því sem ég hugsaði lengur um söguna, fannst mér boðskapur hennar undarlegri. Ég gat ekki séð neitt rangt við afstöðu Faríseans. Ég sá ekki einusinni að hann væri haldinn neinum sérstökum hroka. Var hann ekki einmitt að þakka Guði fyrir að vera ekki sami drullusokkurinn og tollheimtumaðurinn? Hann var ekki að þakka sjálfum sér það heldur leit hann svo á að hann væri stálheppinn að hafa verið úthlutað skárra innræti. Reyndar taldi ég líklegt að hann hefði auk þess tekið þá afstöðu sjálfur að reyna að haga sér eins og maður.
Og þessi tollheimtumannsaumingi -vertu mér syndugum líknsamur- bla… Hversvegna tók þessi svikarefur sig ekki saman í andlitinu og hætti að stela í stað þess að væla yfir því? Ef hann var í alvörunni svona leiður yfir því að vera syndaselur, af hverju bað hann þá ekki Guð að hjálpa sér að finna heiðarlegri vinnu?
Nú er ég orðin stór, er mér sagt, og ég hef enn ekki þroskast upp úr afstöðu Faríseans. Ég lít niður á afætur og finn til þakklætis fyrir að hafa manndóm í mér til að bjarga mér sjálf. Ég vil endilega halda uppi góðu velferðarkerfi svo fólk lendi ekki í nauðum þótt það verði fyrir heilsubresti, atvinnumissi eða öðrum áföllum. Ég myndi ekki hika við að nýta mér aðstoð ef ég þyrfti á henni að halda og ég dáist að þeim sem hafa hugmyndaflug og áræði til að hagnast fjárhagslega.
En ég hef andúð á afætuhætti og spillingu, sama hvort það eru stjórnvöld, stórfyrirtæki, húsmóðir eða öryrki sem á í hlut.
Olíufélögin beygðu höfuð sitt í auðmýkt og sögðu sorrý. Samkvæmt kristilegu siðgæði er þeim fyrirgefið og enn hækkar bensínverðið.
-Já ég er Farísei.