Dregur útþenslustefnan úr möguleikum okkar á hamingju?

Getur verið að ástæðan fyrir því að flestir eru ekki rassgat hamingjusamir sé sú að þegar frumþörfunum er fullnægt, þá taki margir til við að víkka út neðstu lög þarfapýramídans í stað þess að fikra sig upp á við? Þörfin fyrir fæðu og skjól verður að þörf fyrir íburðarmikla fæðu og afganga sem fara í ruslið, stærra hús, fatnað sem enginn slítur. Frumþarfareitirnir teygjast eins og magi sem stöðugt er troðið í og það verður sífellt erfiðara að fylla þá.

Svo þegar einhver segir við þig; það er ekki við því að búast að þú finnir hamingjuna á meðan þú notar ekki hæfileika þína, færð ekki tækifæri til að blómstra sem manneskja, þá heldurðu að sé ekki hægt að komast svo langt á meðan er ennþá pláss fyrir meira dót á neðstu hæðinni.

Sumir eru semi-hamingjusamir af því að þeir horfa aldrei upp í efri lögin og sjá því ekki hve langt þeir eiga í land til að finna þetta fyrirheitna bliss á toppnum.

Aðrir eru óhamingjusamir af því að þeir sjá heildarmyndina en vita að þeim tekst aldrei að fylla einn einasta reit.

Og svo eru þessir fáu sem segjast geta stytt sér leið; verið hamingjusamir í ánauð og öryggisleysi, veikindum, ástleysi og jafnvel hungri. Þótt það sé virðingarverð afstaða að halda í bjartsýnina og láta ekki bugast held ég að hamingja þeirra sé uppgerð.