Davíð hefði þótt óbærilegt að sjá Ólaf felldan?

13177718_1677794172473626_4153153473983686771_n-688x451

Forsetaframbjóðandinn Davíð Oddsson bauð sig fram gegn Ólafi Ragnari Grímssyni af því að hann vildi ekki að Ólafur sæti lengur. Þetta sagði Davíð sjálfur í viðtali í þættinum „Í bítið“ á Bylgjunni í morgun. Undir lok viðtalsins sagði hann svo að sér hefði þótt nánast óbærilegt að sjá Ólaf felldan. Einfrumungurinn sem tók viðtalið spurði ekki einu sinni út í þessa sérdeilis spaklegu þversögn.

Davíð hefur, að eigin sögn, engan sérstakan metnað til að verða forseti. Hann virðist vera að þessu brölti meira svona okkar vegna, af einskæru göfuglyndi og fórnfýsi. Helst er á honum að skilja að hann bindi vonir við að ná ekki kjöri – þeir eiga það sameiginlegt hann og Ólafur eins og svo margt annað.  Davíð skýrir þennan metnaðarskort á þann veg að hann sé löngu búinn að svala sinni metorðagirnd.

Og hvað er það svo sem frambjóðandinn hefur afrekað í gegnum tíðina sem fullnægir svo vel metnaði hans? Hefur hann hjálpað einhverjum nauðstöddum? Hefur hann sinnt störfum sínum af alúð? Ræktað hæfileika sína? Skapað eitthvað fallegt, skemmtilegt eða áhugavert? Fórnað eigin hagsmunum fyrir góðan málstað – einhvern betri en þann að sitja að völdum? Davíð gæti vafalaust talið eitthvað af þessu sér til tekna og kannski þetta allt og fleira til – það er einfaldlega hæpið að ná hans aldri án þess að hafa efni á að finna til sín út af einhverju sem skiptir máli. En það er ekkert í þessa veruna sem frambjóðandinn telur upp þegar hann segir metnaðargirnd sinni svalað. Það sem hefur fullnægt metnaðargirnd Davíðs Oddssonar, svo rækilega að hann hefur eiginlega engan áhuga á að verða forseti, er það að hafa komið í Hvíta húsið og hitt kónga.

Davíð langar ekkert sérstaklega að vera forseti. Hann lætur að því liggja að það sé nú aðallega vegna ábendingar vinkonu um að það sé ekki snjallt PR-trix að opinbera áhugaleysi sitt sem hann er yfirhöfuð að reyna að vera hress og hann tekur skýrt fram að hann langi meira að gantast við barnabörnin en að sitja veislur. Það færi honum eflaust vel því Davíð átti það til hér áður fyrr að vera hnyttinn. Það er reyndar liðin tíð en hver veit nema hann endurheimti eitthvað af fyrra fjöri og útgeislun ef hann losnaði undan þeirri ánauð að fórna sér fyrir lýðinn, að ekki sé talað um fórnir hans í þágu umræðunnar því hann virðist ætla að taka ritstjórahlutverkið með sér á Bessastaði. Í það minnsta ætlar hann að sjá til þess að umræðan um þá skelfilegu ógn sem stafi af múslímum verði ekki þögguð.

Í ljósi sögunnar verður að teljast líklegt að Davíð Oddsson myndi standa sig betur í hlutverki afa en valdamanns og nú er hann meira að segja búinn að gefa það út að hann muni taka því vel ef hann nær ekki kjöri. Vinir hans og aðdáendur þurfa því ekki að óttast fílinn í stofunni þótt það verði staðfest að hann sé í alvöru búinn að vera sem nokkurskonar ígildi einræðisherra. Þjóðin þarf ekki Davíð, það er nóg af fólki í boði sem vill og getur tekið að sér að undirrita lög og halda ræður við hátíðleg tækifæri. Og Davíð þarf ekki Bessastaði, hann hefur þegar hitt nógu marga kónga. Vonandi skilja áhangendur hans hverjum klukkan glymur og gefa honum tækifæri til að feta í fótspor hins pólitíska óvinar síns, þess sem hann vildi í raun alls ekki fella.

Megi Davíð Oddsson eiga margar, góðar stundir með barnabörnunum, una glaður við minningar sínar um kónga, hallir og Hvíta húsið og ganga fagnandi mót frelsinu, rétt eins og Ólafur sjálfur.