DV er ógeð

dv_oglogo

Plúsinn svona ansi snjall í dag. Býður landanum tveggja mánaða áskrift að þeim ómerkilega snepli DV með svarmöguleikunum Já takk ég þori og vil gerast áskrifandi að DV í 2 mánuði og fá 2 miða á Sailesh og Nei takk, ég þori ekki.

Ég sé ekki í fljótu bragði að það þurfi sérstakt hugrekki til að láta fóðra sig á ærumeiðandi kjaftasögum. Ef það er fáránleiki fyrirsagnanna sem heillar er nærtækara að kíkja á Baggalút. Það kostar ekkert og þar sem sú netsíða er kynnt undir merkjum fáránleika, ættu fréttir og fyrirsagnir sem þar birtast ekki að skaða neinn alvarlega. Sá vondi blöðungur DV þykist hinsvegar færa okkur alvöru fréttir sem er öllu alvarlegra.

Þar sem Plúsinn býður ekki upp á svarmöguleikann Nei, ég borga ekki fyrir pappír undir kattasandinn eða Nei, ég styð ekki blað sem hefur sorpfréttamennsku að yfirlýstu markmiði svaraði ég þessari auglýsingu ekki.

Kaldastríðskynslóðin

Þessi færsla spratt að umræðum um pistil minn um verðbólgukynslóðina sem ég endurbirti á Eyjunni í nóvember 2012 sem svar við fullyrðingum Sighvatar Björgvinssonar um sjálfhverfu kynslóðina.

Þegar ég birti pistilinn um verðbólgukynslóðina fyrst í apríl 2005, gerði einn lesenda athugasemdir við hugtakanotkun mína. Í eftirfarandi pistli svara ég honum.
——–

Kaldastríðskynslóðin

sveppurTorfi Stefánsson spyr um hugtakanotkun mína í fyrri pistli. Hann efast um að sé rétt að tala um mína kynslóð sem „kaldastríðskynslóðina“. Rökin eru þau að  mín kynslóð sé firrt, hafi alist upp á diskótónlist og lítinn áhuga sýnt á pólitík. Einnig að hans eigin kynslóð hafi líka búið við kalt stríð og geti því alveg eins kallast kaldastríðskynslóð.

Jú Torfi, ég er af kaldastríðskynslóðinni. Kalda stríðið stóð frá stríðslokum og samkvæmt mínum sögubókum lauk því með falli Berlínarmúrsins 1989. Kalda stríðið náði frostmarki með vígbúnaðarkapphlaupinu. Gereyðingarógnin sem mín kynslóð ólst upp við var ekkert óraunverulegri þótt við skildum ekki pólitík.

Munurinn á pólitískri vitund blómabarnanna og diskókynslóðarinnar var helst sá að við höfðum engan málstað að verja. Það var ekkert stríð til að mótmæla, ekkert til að æsa sig yfir. Við vorum bara lömuð. Ungu fólki er eðlilegt að keyra áfram á ástríðum og margir æstu upp í sér kvíða og ótta, kannski af því að þeir höfðu ekki næga ástæðu til að vera reiðir. Við hlustuðum á klukkuna tifa og litum upp í himininn til að skimast um eftir svepplaga skýi. Slógum svo öllu upp í kæruleysi þar sem við gátum hvort sem var ekkert gert og notuðum tímann til að skemmta okkur. Diskóið var ekki pólitískt nei en kannski var það bara það sem við þurftum.

Þín kynslóð Torfi, er ekki kaldastríðskynslóð í sama skilningi, því þótt kalt stríð hafi verið í gangi var eitthvað að gerast, ekki bara ógnvænleg bið.

Það var þetta aðgerðaleysi, þessi bið sem einkenndi mín unglingsár. Og þessvegna erum við svona firrt.

 

Til heiðurs verðbólgukynslóðinni

spariKaldastríðskynslóðin

Kynslóð mín er firrt.

Kaldastríðskynslóðin hafði hvorki pólitíska vitund né tónlistarsmekk á táningsárunum. Við sáum enga ástæðu til að fara í mótmælagöngur því það var engin heimsstyrjöld í gangi baragjöreyðing yfirvofandi. Lítið við því að gera svo við fórum bara á diskótek. Kunnum ekki einu sinni að nota fíkniefni að ráði. Í dag erum við kortakynslóðin og ennþá jafn veruleikafirrt. Lifum á pizzum. Ölum börn okkar upp við efnishyggju sem gengur geðbilun næst og skuldum meira en við eigum nokkurn tíma eftir að afla. Ljótu lúðarnir. Halda áfram að lesa