Góð mistök

Þorláksmessumaturinn hér var ekkert kæst óæti, heldur sítrónu- og saffranleginn þorskhnakki með smjörsteiktum möndlum og Nínískri trönuberjasölsu. Þetta var reyndar „slys“ því ég hélt að ég hefði verið að nota turmerik en kom í ljós að afghönsku leigjendurnir höfðu skilið eftir heilt kryddglas af saffrani. Bestu mistök sem ég hef gert lengi. Þetta var alveg ætt.

Valkvíði

Fyrstaheimsvandamálin eru að ríða okkur Eynari á slig. Nú er lítrinn af Bombay gini á 18 pund í Sainsbury´s og lítrinn af Tangueray gini er á 16 pund hjá Morrisons. Við eigum hinsvegar þvílíkan lager af gini að það væri bara rugl að kaupa meira. Og af þessu getum við lært að annað hvort drekkum við ekki nóg, eða þá að þið hin komið ekki nógu oft í heimsókn.

Jákvæðnihættan

Maðurinn minn er að hóta að vera jákvæður á FB. Ef það hefur þau áhrif að hann taki upp á því að nöldra heima (við erum ekki með bíl í Glasgow og hann nöldar eingöngu á netinu og undir stýri), þá neyðist ég til að pósta einhverju sem gengur fram af honum. Þannig að ef ég tek allt í einu upp á því að tala vel um Framsóknarflokkinn eða halda því fram að súkkulaði sé óhollt – þá þýðir það ekki að ég sé búin að missa glóruna, heldur bara aðgerð til að viðhalda sæluástandi á heimilnu. Til þess eru kommentakerfin að kverúlantast.

Þurrbrjósta

Systur minni finnst mjög spaugilegt að fólk sem er fætt eftir 1900 noti orðið „þurrbrjósta“. Sem betur fer gerist þess heldur engin þörf því hér eru allir blautbrjósta í kvöld. Nema Hulla sem þykir greinilega ekkert vænt um okkur.