Rún dagins er Dagur

Dagur er tákn upplýsingar og nýrra tíma. Sumir telja hana eiga að vera síðustu rún rúnarófsins fremur en Óðal. Í galdri er Dagur notaður til að öðlast skilning, komast yfir upplýsingar, ná áfanga eða komast frá veraldlegum aðstæðum eða sálrænu ástandi, ekki síst þunglyndi.

Í rúnalestri táknar Dagur að hið gamla verður að víkja fyrir hinu nýja. Það verður ekki bæði sleppt og haldið. Sá sem vill slíta sambandi verður að ljúka því endanlega og sá sem vill komast yfir slæma ávana getur þurft að forðast aðstæður sem ýta undir þá hegðun. Árangurinn af því verður tímabil bjartsýni og gleði.

Þetta er ekki hungur

Mín innri feitabolla er að reyna að sannfæra mig um að nú sé góður tími til að borða eitthvað. Bara eitthvað. Ég er ekki svöng. Borðaði tvö svínarif og banana um kl hálf tíu í morgun og svo kaffi með mikilli mjólk. Ég var reyndar svöng í alvöru en hefði vel getað beðið í háftíma án þess að líða beinlínis illa. Vanrækti það, sem er svindl. Smásvindl. Halda áfram að lesa

Rún dagsins er Ingvi

Ingvi/Yngvi er frjósemisrún. Hún táknar konunginn sem átti vald sitt undir því að guðirnir blessuðu ríki hans með góðu árferði. Áður fyrr þótti heillavænlegt að grafa rúnina undir þröskuldi gripahúsa til þess að auka frjósemi búfjár. Ingvi hentar vel í heillagripi og galdrafólk notar þessa rún í galdra sem eiga að tryggja fjárhagslegt öryggi og eins til frjósemisauka.

Í rúnalögn táknar Ingvi barnsfæðingu eða að spyrjandinn muni senn ná veraldlegu markmiði sem hann hefur unnið að lengi. Tími friðar og velmegunar er framundan. Ef bölrún kemur upp á eftir Ingva er því ástandi ógnað. Elskendum boðar rúnin góða sambúð og barnalán.

Rún dagsins er Lögur

Lögur er andlegust rúna. Hún táknar vatnið sem þrátt fyrir mýkt sína er einn af frumkröftum náttúrunnar, í senn lífgefandi og eyðandi. Lögur er lækningarún og einnig notaður sem tákn þess sem finnur sér farveg fram hjá hindrunum ef hann getur ekki rutt þeim úr vegi. Þakklæti og hugarró þarf til að rúnin hafi áhrif í galdri.

Í rúnalestri getur Lögur táknað lækingu, kærleika og andlega næringu. Ef spyrjandinn er námsmaður, frumkvöðull, listamaður eða fæst við umönnun eða sálgæslu, boðar Lögur honum gæfu. Ef hann er í vandræðum mun hann finna leið út úr þeim af eigin rammleik.