Kærurnar á hendur Útvarpi Sögu

Ætli þeir sem kærðu Sögu-liðið reikni með þeim möguleika að sýknudómar falli? Og ef svo færi, getur verið að sakborningar og aðrir af þeirra sauðahúsi túlki það þannig að þeim sé óhætt að ganga lengra?

Mér finnst gjörsamlega fráleitt að kæra þetta og miðað við dómaframkvæmd Hæstaréttar og MDE er harla ólíklegt að þessi ummæli verði flokkuð sem hatursorðræða. Enda yrði þá illa komið fyrir tjáingarfrelsinu. Mér finnst líklegast að hugmyndin sé bara sú að láta reyna á þetta. Það er ekki hlutverk dómstóla að gefa lögfræðilegt álit án þess að tiltekið mál sé til úrlausnar svo það þarf að draga einhvern fyrir dóm.

Ég tek fram að mér finnst Útvarp Saga fullkomlega viðbjóðsleg útvarpsstöð. Þetta er fyrirtæki sem er augljóslega rekið með því markmiði að vera vettvangur fyrir kynþáttahatur og niðingsskap gagnvart minnihlutahópum. En það réttlætir nú samt ekki að fólk sé dregið fyrr dóm fyrir það eitt að vera fyrirlitlegir asnar.

Fjórflokksstjórn?

Fjórflokksríkisstjórnin verður æði. Sjálfstæðisflokkurinn fær að halda áfram að mylja undir útgerðina og einkavæða smá hér og smá þar. Framsókn fær að halda áfram að mylja undir Bændasamtökin og níðast á hælisleitendum. Samfó fær smáaura til að hækka niðurgreiðslur á skólamáltíðum og og fjölga reiðhjólastígum og VG fá aukið svigrúm til að refsa fólki fólk fyrir vondar skoðanir og troða kynjafræðingum í nokkrar stöður til viðbótar #allir_vinna

Þurrbrjósta

Systur minni finnst mjög spaugilegt að fólk sem er fætt eftir 1900 noti orðið „þurrbrjósta“. Sem betur fer gerist þess heldur engin þörf því hér eru allir blautbrjósta í kvöld. Nema Hulla sem þykir greinilega ekkert vænt um okkur.

Lýðræði

Einveldi er skilvirkt – en óréttlátt. Upplýst einveldi er þúsund sinnum skárra en heimskt einveldi en samt mjög vont. Lýðræði er að mörgu leyti réttlátt, en það gengur ekki almennilega upp. Lýðræði er skársta fyrirkomulag sem við þekkjum en það er samt dálítið vont. Kannski væri upplýst lýðræði málið? En hvernig í fjáranum verður því komið á?

Umræður hér

Stjórn í myndun

Ætli það verði ekki Silfurskeiðabandalagið aftur, með trójuhestinn til stuðnings. Engar skattahækkanir nema á vesalinga, meiri þensla – ekkert stopp – og annað hrun. Því miður bitnar það ekki á þeim sem helst eiga það skilið.

Okkar útfærsla á lýðræði er greinilega ekki málið. Við verðum að fara að endurskoða það.