Rún dagsins er Barð

Barð er verndarrún og hentar byrjendum vel því hún gerir ekkert illt. Barð táknar vernd heimilis og einkalífs og er ekki síst notuð sem verndargripur fyrir börn og aðra smælingja.

Í rúnalestri táknar Barð ein og sér að leyndarmál spyrjandans eru vel geymd og ekkert illt steðjar að honum. Ef bölrúnir koma upp næst henni getur það táknað að ógn vofi yfir og því sé tímabært að huga að tryggingum og öryggisbúnaði. Ef Barð kemur upp næst Mannsrúninni táknar það traustan vin eða verndara en komi jafnframt upp Nauð eða Þurs þarf spyrjandinn að varast fláráða vini.

Rún dagsins er Ýr

Ýr er rún sköpunar og sveigjanleika. Ýr merkir bogi, sem er notaður til þess að skjóta ör í mark, en einnig íviður, sem er mjúkur og sveigjanlegur og gott efni í boga. Í galdri er rúnin notuð til þess að ná fram góðum samningum sem báðir aðilar hagnast á og til þess að tryggja farsæla lausn í deilumálum og finna nýjar lausnir.

Þegar Ýr kemur upp í rúnalestri táknar hún að spyrjandinn geti fengið sínu framgengt, að minnsta kosti þannig að hann verði sáttur, ekki með því að vera harður í samningum heldur með því að gefa eftir og huga að fleiri valkostum.

Rún dagsins er Jörð

Jörð er uppskerurúnin. Nafnið táknar í senn jörðina og árið og felur í sér þá hugmynd að hafi maður á annað borð sáð í akur sinn og annast hann vel sé nú komið að uppskerutíð. Hún er auðvitað ekki varanleg svo nú er rétt að safna korninu í skemmur en ekki eyða og spreða. Jörð er gæfurún sem hentar byrjendum vel.

Í rúnalestri táknar Jörð verðskuldaðan árangur. Sé spyrjandinn að takast á við nýtt verkefni er hún honum hvatning til að standa vel að verki en ef verkefninu er að ljúka boðar hún að hann mun uppskera eins og hann sáði til og ræðst það af nærliggjandi rúnum hvers er að vænta.

Útilega – dagur 3 – Svínafellsjökull

Ég hafði aldrei stigið fæti á jökul og þótt ég sé ekki svo hrifin af áhættusporti að mig langi í ísklifur eða að klöngrast yfir jökla dögum saman, hefur mig samt langað ponkulítið að prófa að stíga á jökul, bara til að vita hvort það er eitthvað líkt því að ganga um götur Reykjavíkur í febrúar. Það er búið að loka vegarslóðanum að Breiðamerkurjökli en við komumst að Svínafellsjökli. Halda áfram að lesa