Rún dagsins er Sunna


Sunna, sólarrúnin, er sigurrún. Hún táknar sjálfstraust og sigurvissu, gott árferði, öryggi, persónutöfra og leiðtogahæfileika. Í galdri er hún notuð til að tryggja sigur í hverskyns baráttu.

Í rúnalestri táknar Sunna að spyrjandanum sé óhætt að taka áhættu og að bjartsýni og áræðni muni á næstunni duga honum betur en varkárni og tortryggni. Ef hann sýnir dirfsku og metnað getur hann aukið vinsældir sínar og velgengni til muna. Óvinir hans munu í flestum tilvikum leggja á flótta, en ef ekki fer hann með sigur af hólmi svo fremi sem hann nýtir herkænsku sína og  leiðtogahæfileika til fullnustu.

Á sérstökum stað

Bara svo það sé á hreinu þá er ég ekki á leið með að verða útivistarfrík en um helgina gerði ég nú samt aðra tilraun til að fara í útilegu. Ég hef hingað til talið rétt að prófa allt einu sinni en nú er ég komin að þeirri niðurstöðu að sumt þurfi að prófa þrisvar sinnum áður en maður gerir upp við sig hvort það er áhugavert eða ekki.  Halda áfram að lesa

Rún dagsins er Elgur

Elgur er varnarrún sem táknar hin stóru horn elgsins. Elgur er allra rúna nytsamlegust því hún er mögnunarrún og er notuð í galdri til þess að magna áhrif annarra rúna og á næstum alltaf vel við. Hún er notuð til að verjast árás eða illum hug og er vinsæl sem verndargripur.

Í rúnalestri táknar Elgur að spyrjandinn hefur alla burði til að verjast erfiðleikum og árásum. Hann er hugrakkari en hann heldur og þarf bara að taka fyrsta skrefið, eftir það verður allt auðveldara. Þegar rúnin kemur upp með öðrum rúnum táknar hún aukin áhrif þeirra þátta sem gæfurúnir standa fyrir og vörn gegn bölrúnum.