Oh þessar túristur

Ég heyri svo oft sögur af konum sem eru afgreiddar með því að spyrja hvort þær séu á túr. Ég hef aldrei svo ég muni orðið fyrir þessu sjálf. Ég væri til í að borga mun hærri upphæð en sem svarar bindum og töppum til að losna við þetta helvíti.

Ég heyri konur tala um að þær verði fyrir dónaskap, aulahúmor og því að ekki sé tekið mark á þeim vegna kynferðis þeirra. Ég verð hinsvegar mjög sjaldan fyrir þessu sjálf (og þá helst þannig að það þyki krúttlegt að lítil kona rífi kjaft, sem fer vissulega í taugarnar á mér) og ég velti því fyrir mér hvort sé eitthvert gap milli upplifunar og raunveruleika.

Ég heyri karla líka tala um að það sé útilokað að vita hvað konur vilji og þeir þori varla að sýna svona séntilmennsku eins og að opna dyr fyrir konu eða borga reikninginn á veitingastað. Ég þekki hinsvegar enga konu sem tæki því illa, svo mér dettur helst í hug að þeir hafi meiri áhyggjur af þessu en efni standa til eða séu jafnvel að nota sjálfstæðisbaráttu kvenna sem afsökun til að vera durtar.

Ég efast um að þeir sem ég umgengst séu öðru fólki siðaðri. Ég virðist verða fyrir minni dónaskap en þær konur sem tjá sig um kynjaátök opinberlega. Hugsanlega er skýringin sú að ég held upp á gamla, góða húsráðið; að verða bara stjörnuvitlaus ef mér ofbýður. Önnur skýring gæti verið sú að margar konur mikli fyrir sér svona skítapillur og telji sig heyra þetta og annað eins oftar en raun er á.

Baráttumál Vantrúar

Enn eitt dæmið um fullkomið skilningsleysi á baráttumálum vantrúar. Vantrúarmenn eru ekki í baráttu fyrir rétti sínum til að trúa ekki á Gvuð, heldur því að fá að vera í friði fyrir trúboði. Þeir berjast gegn því að hið opinbera, menntakerfið og fjölmiðlar haldi á lofti, styrki og styðji hugmyndir sem standast enga vísindalega skoðun. Það má vissulega deila um hversu smekklegt orðfar þeirra er en mikið er ergilegt að sjá fólk sem ætti að fatta þetta, beina stöðugt athyglinni að einhverjum vafasömum ummælum fremur en málstaðnum sjálfum.

Bókstaflega neglt

Mikil blessun er að vita að börn flokksmanna vg skuli njóta svo sérstakrar verndar forsjónarinnar að þau geti bara ekki orðið fyrir kynferðisofbeldi. Spurning hvort ákveðinn lögmaður ætti ekki bara að bjóða upp á námskeið í rökfræði.

Ég velti því annars fyrir mér hverskonar andskotagangur þurfi eiginlega að fara fram til þess að tíðatappi festist. Gengur allavega langt út fyrir mínar hugmyndir um harkalegar samfarir. Vissi ekki að menn legðu svo bókstaflegan skilning í sögnina „að hamra“ en það eru greinilega til menn sem láta smá fyrirstöðu ekkert hindra sig í því að bæta sambandið við unnustuna.

Mínir menn hafa nú yfirleitt bara fært mér blóm ef þeir hafa séð meiri ástæðu til að bæta sambandið en slíta því. Ekki svo að skilja að það hafi virkað en einhvernveginn tengi ég þá aðferð frekar við mannasiði.

Er að flytja

Hingað

Vonandi hætta lesendur að lenda í vandræðum með að setja inn umæli. Síðan hefur verið of þung fyrir þá sem nota explorer en nýja síðan er væntanlega í lagi.

Persónulega bloggið mitt hefur síðustu mánuði verið vistað á lokuðu svæði en héðan af verður það sem ég er til í að hafa opinbert í sápuóperuflokknum á pistlinum. Vinir og vandamenn geta haft samband við mig t.d. á eva@norn.is eða á snjáldrinu til að fá  aðgang að þeim sem ekki eru birtir.

Ungir foreldrar

Af hverju er svona nauðsynlegt að sporna gegn því að fólk eignist börn ungt? Bendir eitthvað til þess að ungt fólk sé vanhæft til að annast börn eða er neyslumenningin að byggja upp óbeit á öllu sem hefur í för með sér ónæði, þ.m.t. börnum?

Það er talað um unglingafæðingar sem stórkostlegt félagslegt vandamál á Íslandi. Allt síðasta ár var EIN stúlka sem eignaðist barn 15 ára. Fæðingar stúlkna undir 19 ára aldri voru innan við 100. Hvað er svona skelfilegt við að eignast barn ungur og er það eitthvað lögmál að fólk verði nauðsynlega að „hlaupa af sér hornin“? Hefur fólk ekki í gegnum tíðina eignast börn innan við tvítugt?

Ein af þessum órökstuddu vitaskuldum er sú að félagsleg staða fólks verði svo erfið ef það eignast börn ungt. Það átti sennilega við fyrir 40 árum en þótt ekkert hindri ungar mæður í því að fara í langskólanám í dag, er það samt notað sem „röksemd“. Fólk skilur á öllum aldri þannig að hærri aldur er engin röksemd fyrir því að samband sé traust. Er málið ekki bara það að börn eru álitin ýmist dragbítur (eða „pakki“) eða þá prinsar og prinsessur sem eigi helst aldrei að upplifa nein óþægindi, fremur en að vera eðilegur hluti af tilverunni? Þegar mínir drengir voru að alast upp hafði ég stöðugt samviskubit yfir þvi að sjá ekki nógu vel fyrir þeim. Í dag tala þeir um að ýmislegt hefði mátt betur fara en fátæktin er ekki meðal þess sem þeim finnst að hefði átt að vera öðruvísi.

Ég var ekki rassgat fullorðin 19 ára en ég eignaðist samt barn þá og það var bara nákvæmlega ekkert annað en yndislegt.

Við getum ekki bjargað öllum með handafli

Auðvitað er ég sammála Heiðu um að við eigum að bjarga þeim núna.

Vandamálið er bara það að ef vandamálið er innbyggt í kerfið þá verða það aðeins þeir sem bera sig eftir því, þeim sympatískustu og þeir viðfelldnustu sem fá hjálp. Þetta á við á öllum sviðum, hvort sem við hugsum um sjúklinga og aðstandendur þeirra, flóttamenn, fólk í fjárhagsvanda, þolendur heimilsofbeldis eða eineltisbörn. Gott mál ef þessi fjölskylda fær aðstoð frá áhugafólki en við ætlum að byggja velferðarkerfi á söfnunum meðal áhugafólks, þá verða þeir útundan sem funkera illa félagslega eða bera ekki sorgir sínar á torg.

Að sjálfsögðu geta björgunaraðgerðir stuðla að kerfisbreytingum og þegar fólk í neyð býr við kerfi sem bregst þá er ekkert um annað að ræða en að þeir sem hafa samúð með því hjálpi til. Hinsvegar er það ekki nóg, við verðum að breyta kerfinu þannig að fólk geti veikst eða átt veik börn án þess að missa heimili sín. Það er óþolandi að fólk þurfi að reiða sig á ölmusu.