Byrjuð á hreinsikúr

bullshit-meter-2
Líkaminn er ótrúlega fullkomin vél. Býr yfir allskonar sjálfvirkum kerfum sem  sjá um að halda öllu í jafnvægi, allavega ef maður hegðar sér ekki þeim mun heimskulegar. Við þurfum t.d. aldrei að hita eða kæla blóðið í okkur, líkaminn sér bara um það sjálfur. Svo fremi sem maður forðast að stökkva í jökulár eða sofa eftirlitslaus í gufubaði.

Ég hef alltaf haldið að það sama gilti um hreinsibúnað líkamans. Jú auðvitað þarf hann smá hjálp, meltingin vinnur ekki eðlilega nema maður borði dálítið af trefjum og nýrun ráða ekki við óhóflegt saltmagn til lengdar, lifrin skemmist ef maður drekkur vodka oftar en vatn en þetta eru nú vísindi sem eru flestum okkar bara í blóð borin.

En menningin gefur skít í það sem er manni í blóð borið og líferni nútímamannsins er á köflum þannig að maður þarf að vera meðvitaður um það sem maður setur ofan í sig. Ég hélt lengi að það væri nóg að beita dálítilli skynsemi. Sá sem drekkur 12 bolla af kaffi daglega ætti kannski að spá í möguleikann á að skipta nokkrum þeirra út fyrir kamillute. Ef maður fær bjúg er kannski kominn tími á færri kartöfluflögur og dálítinn trönuberjasafa eða melónu í staðinn. Borða hýðishrísgrjón oftar en franskar. Ég hef ekki gengið mikið lengra í heilsufæðinu en þetta en nú er ég að átta mig á því að smávegis grænmeti og trefjar eru alls ekki nóg, það þarf líka að hreinsa líkamann reglulega.

clean-eating1
Ég var reyndar búin að frétta af nauðsyn þess að nota stólpípur, drekka 3 lítra af vatni á dag og láta jóna á sér tærnar. Ég vissi hinsvegar ekki fyrr en í gær að maður þyrfti líka að hreinsa í sér lifrina. Ég byrjaði á þessum hreinsikúr í gær. Fannst fyrst dálítið mikið að bæta 500 hitaeiningum við fæðið daglega en þegar ég kom að kvöldritúalinu meikaði það fullkomlega sens að drekka svona mikinn safa. Ég hlakka sérstaklega til að nota niðurgangslyfið á sunnudaginn en epsomsalt er einmitt sagt gott við hægðatregðu og ætti því að virka sérlega vel fyrir þá sem hafa verið laxerandi alla vikuna. Kvölddrykkurinn virkaði rosalega vel fyrir lifrina í mér í gær. Ég á góða safapressu og náði 330 ml af safa úr tveimur greip. Fannst dálitið mikið að drekka það auk 330 ml af matarolíu til viðbótar en hvað gerir maður ekki fyrir heilsuna? Ég var reyndar næstum búin að klúðra þessu, því mér varð það á að leggjast á vinstri hliðina og var búin að liggja á henni hátt í 5 mínútur þegar ég uppgötvaði mistökin (í annarri klósettferðinni.) Ég lagðist þá á hægri hliðina og fann strax hvernig lifrin byrjaði að hreinsast. Eynar kom svo með hitapokann fram á bað fyrir mig en ég svaf þar í nótt, af skiljanlegum ástæðum.

Ég held að svona náttúrulegar aðferðir séu algerlega nauðsynlegar í nútímanum. Við borðum svo mikið ógeð sem sest í lifrina. Maður gengur líka með allskonar ranghugmyndir um hollustu. Ég verð t.d. blóðlaus af og til og hingað til hef ég brugðist við því með því að borða slátur. Sem er fullt af mör og ógeði. En sem betur fer eru til önnur og heilnæmari ráð við blóðleysi. Eynar benti mér t.d. á að hægt væri að fyrirbyggja blóðleysi með því að vera alltaf með ógalvaniseraðan þaksaum undir tungunni. Ég er reyndar hrædd um að gleypa hann svo ég ætla ekki að sofa með hann en þess í stað ætla ég að baða mig upp úr mýrarrauða kvölds og morgna.