Það er nokkuð sem ég hef velt fyrir mér undanfarið og lætur mig ekki í friði. Mér líður eiginlega óeðlilega vel. Óeðlilegt ástand bendir líklega til þess að eitthvað sé ekki eins og það á að vera, hvort sem það er jákvætt eða neikvætt.
Ég er ekki þunglynd að eðlisfari en ég hef samt lent í því, bara sjaldan, að líða hroðalega illa án þess að það eigi sér nokkrar ytri skýringar. Þegar það hefur gerst þá hef ég gripið til aðgerða. Orðið mér úti um einhverja hamagangsvinnu, klippt kreditkortið, reynt að vera sem mest innan um fólk, gætt þess að svefntími raskist ekki úr hófi og borðað þótt mig langi ekki í mat. Hef m.a.s. tvisvar leitað til læknis og verið sett á lyf. Það virðist svona almennt álit að þetta séu mjög skynsamleg viðbrögð og kórrétt ályktun að vanlíðan án sýnilegrar ástæðu sé sjúkleg.
Undanfarið hefur mér liðið fáránlega vel þótt ekkert í aðstæðum mínum sé beinlínist frábært. Það er svosem enginn bömmer í gangi en alveg fullt sem hefur oft verið betra. Mér líður hreinlega eins og á fyrstu vikum ástarsambands en samt er ekkert slíkt í gangi. Á ekki einu sinni bólfélaga. Kannski það sé skýringin? Venjulega verð ég náttúrulega frekar geðveik ef ég hef ekki einhvern slíkan en það hefur hingað til verið frekar neikvæð geðveiki með skapvonsku, sjálfvorkunnarköstum og tilheyrandi tregaklámi.
Í alvöru; þetta er fáránlegt. Það er ekki einu sinni svo gott að það sé nokkur maður í mínu lífi sem ég gæti hugsað mér að búa með og þótt ég sé alltaf í aðra röndina létt skotin í nokkrum ungum fábjánum, þá er það nú bara krónískt ástand, ekkert sem raskar ró minni eða er beinlínis persónulegt. Ekkert í líkingu við að vera ástfangin allavega.
Spurning hvort ég á að leita mér hjálpar? Hljómar bara eitthvað svo undarlega að leita til læknis og biðja um aðstoð vegna óeðilegrar vellíðunar. Samt er ég ekki frá því að þetta gæti orðið vandamál. Ég er bara í einhverju blissástandi, nenni ekki að gera neitt nema skrifa og hlusta á tónlist. Hef ekki einu sinni rænu á að panta leikhússmiða og þá ER eitthvað ekki eins og það á að vera.