Betra eftirlit með örorkusvindlurum

RUV birti ekki alls fyrir löngu frétt af 18 ára dreng sem hefur verið fatlaður frá fæðingu en þarf nú að sanna fötlun sína svo hann fái örorkubætur. Enginn vafi hefur leikið á fötlun hans hingað til og móðir hans hefur fengið umönnunarbætur en þar sem hann hefur nú náð 18 ára aldri er tilvalið að nota það tækifæri til að skapa dálítið vesen.

Í umræðum um fréttina á fasbókinni rifjuðu netverjar upp sögur í svipuðum dúr. Einhver mundi eftir móður barns með Downs heilkenni, sem fékk ekki umönnunarbætur af því hún hafði gleymt að skila inn vottorði fyrir því að barnið væri ennþá fatlað. Aðrir sögðu frá fólki sem hefur misst útlimi og þurfti að skila inn árlegri staðfestingu á að því hefði ekki vaxið ný hönd eða fótur. Mér skilst að Tryggingastofnun sé fallin frá þeirri kröfu þótt hún krefjist þess enn að fólk sanni fötlun sína þegar það nær sjálfræðisaldri.

Hversvegna þetta vesen, kann einhver að spyrja, er ekki ljóst að meðfædd fötlun veldur áfram örorku þótt maður nái 18 ára aldri? Þegar grannt er skoðað eru þó góð rök fyrir þessu fyrirkomulagi og full ástæða til að taka aftur upp árlegt eftirlit með ástandi þeirra sem segjast búa við varanlega örorku.

  1. Vesen er atvinnuskapandi
    Það gengur ekki að læknar séu á launum við að bora í nefið þegar þeir gætu verið að sinna mikilvægari störfum eins og t.d. þeim að skrifa vottorð um að af sé fóturinn. Ennþá. Starfsfólk Tryggingarstofnunar hefur eflaust líka of lítið að gera og því tilvalið að fá því verkefni við að endurskrá upplýsingar sem þegar eru til.
    .
  2. Það er sá sem heldur einhverju fram sem ber sönnunarbyrðina
    Það er því bara sanngjarnt að sá sem fæðist með litningagalla, skerta heilastarfsemi eða líkamlega fötlun, og fullyrðir að þetta ástand hafi ekki breyst, leggi dálítið á sig til að sanna það.
    .
  3. Erfiðleikar eru þroskandi
    Öryrkjar lifa vernduðu lífi og þurfa sjaldan að standa í veseni eins og annað fólk. Það er því rétt að ríkið nýti þau tækifæri sem skrifræðið skapar til þess að þroska skipulagshæfileika þeirra og þolgæði.
    .
  4. Slappt eftirlit leiðir gjarnan til þess að fólk geri sér upp fötlun
    Hver kannast ekki við einhvern sem hefur leikið þann leik að reyra hönd sína við öxl og þykjast vera handarlaus, ganga á veggi til að sannfæra aðra um að hann sé blindur eða gera sér upp snöggar og rykkjóttar hreyfingar í von um að Tryggingastofnun trúi því að hann sé spastískur? Slíka svikahrappa verður að stöðva og árlegt eftirlit gæti flett ofan af einhverjum þeirra.
    .
  5. Kraftaverk eru staðreynd
    Öll höfum við heyrt sögur frá kraftaverkasamkomum þar sem kraftaverkalæknar troða upp, illir andar eru út reknir, lamaðir standa upp úr hjólastólum og blindir fá sýn. Engum sögum fer þó af þessu fólki í framhaldinu. Enginn birtir myndir af nýheiluðum líkamshluta á netinu. Fjölmiðlar birta engin viðtöl við fólk sem var bundið hjólastól en hleypur nú keikt um grundir. Hversvegna? Vegna þess auðvitað að kraftaverkafólkið vill ekki missa bæturnar og leynir því bata sínum.

Af framansögðu má ljóst vera að engin ástæða er til að ganga út frá því að fötlun sé varanlegt ástand. Mun frekar ætti að nota hvert tækifæri til að skikka öryrkja til að sanna ástand sitt. Annars gætu þeir kannski varið tíma sínum til þess að gera eitthvað sem leiðir hugann frá því ástandi, ég tala nú ekki um ef þeir gætu bara rétt fram debetkort í stað þess að reiða sig á aðstoð vina og ættingja. Slíkt má ekki henda.