Mér hefur þótt sumt af því sem fram hefur komið um mál Hjördísar Svan benda til þess að búið sé að hræra þokkalega í börnunum.
Það er óvenjulegt að 13 ára drengur kalli stjúpföður sinn „manninn“ í stað þess að nota nafn hans og hugleiðingar hans um að pabbar í Danmörku drepi oft börn, bendir til þess að umræðan á heimilinu hafi ekki verið laus við tilhneigingu til dramatiseringar.
Það að telpurnar skuli nefna föður sinn með nafni í stað þess að kalla hann pabba, vekur líka grun um að hann hafi verið framandgerður í hugum þeirra og það er eitthvað undarlegt við það þegar börn eru svona ofboðslega upptekin af því hversu heitt þau elski móður sína.
Birting myndbands af grátandi barni er í mínum huga vægast sagt ósmekkleg aðferð til að afla málstaðnum fylgis. Hvaðan hefur barnið þá hugmynd að „ofbeldismaðurinn“ (eins og mamman nefnir föður hennar jafnan) sé að koma að „taka hana“ og að hann geti fundið heimilisfangið í tölvunni sinni? Það hvarflar nú svona að manni að börnin hafi fengið aðstoð til að komast að þessum niðurstöðum og ég velti því fyrir mér hvaða áhrif það hafi almennt á börn ef fyrirhuguð dvöl hjá föður er kynnt með orðunum „ekki vera hrædd, ég skal passa að ofbeldismaðurinn komi ekki og taki ykkur“ í staðinn fyrir „þið eruð að fara til pabba, hlakkið þið ekki til að sjá hann?“ Fram hefur komið að samkvæmt mati sálfræðings bendi ekkert til þess að faðirinn hafi beitt börnin ofbeldi eða að þau óttist hann og allt hefur þetta mál lyktað af vafasömum baráttuaðferðum í forræðisdeilu.
Þótt ég hafi ekki verið í aðstöðu til að leggja mat á þetta mál, frekar en aðrir sem ekki hafa neinar upplýsingar nema úr fjölmiðum, hef ég svona frekar hallast að því að börnin hafi fengið aðstoð við að komast að þeirri niðurstöðu að faðir þeirra sé „ógeðslegur“ eins og önnur dóttir Hjördísar segir í myndbandinu og að sú ákvörðun að senda börnin út í óþökk móður þeirra gæti jafnvel átt rétt á sér. Aðferðin, að senda einkennisklædda sérsveitarmenn inn á heimili barnanna til að rífa þau af móður sinni með valdi, getur þó seint talist réttlætanleg, hvað sem á kann að hafa gengið áður og vandséð að hugmyndin sé sú að tryggja velferð barnanna. Reyndar virðast hagsmunir þeirra vera algert aukaatriði í hugum þeirra sem tóku þessa ákvörðun og framfylgdu henni.
Ég hef lítið fylgst með þessu máli og viðtal Pressunnar við Hjördísi Svan fór fram hjá mér þar til núna í morgun.
Þetta viðtal, ásamt umfjöllun Hreins Loftssonar, hefur breytt sýn minni á þetta mál. Ekki svo að skilja að ég sé neitt hrifnari af því en áður að birta myndbönd af börnum í uppnám en örvænting rekur fólk oft til að taka óskynsamlegar ákvarðanir og séu þessar lýsingar á samskiptum konunnar við kerfið réttar þarf engan að undra að hún hafi gripið til örþrifaráða.
Af hverju eru áverkavottorð og sjúkraskýrslur ekki skoðuð sem gögn í málinu? Hefur einhver fréttamaður krafið yfirvöld svara um það? Hvernig í ósköpunum komast barnaverndaryfirvöld, sýslumaður og lögregla upp með svona margháttað fúsk? Hvaða heilvita maður trúir því að 20 mínútna viðtal dugi til þess að byggja á því sálfræðimat í svo viðkvæmu máli? Hvert á fólk að snúa sér þegar ráðuneytið brýtur lög? Sú spurning sem mér finnst áleitnust er þó sú hvernig manneskja í stöðu Hjördísar núna og föðurins áður, geti framfylgt rétti sínum til að umgangast börnin. Það getur ekki verið löglegt að leyna foreldri því hvar börnin eru og hvernig högum þeirra sé háttað nema fyrir liggi dómsúrskurður um nálgunarbann. Hvert á fólk að snúa sér ef því er neitað um eðlilegt samband við börnin sín? Mikið þætti mér gott ef blaðamenn væru til í að afla svara við því. Mér þætti það jafnvel áhugaverðara en fréttir af stjörnuglæpamönnum jónureykingar á Amtmannsstígnum og fjölda gesta á útihátíðum.
Orð í tíma töluð