Bara góð og undirgefin

Hann sagðist vera að leita sér að konu og ég spurði hann hvernig sú kona ætti að vera. Sennilega hefur hann ekki verið búinn að velta því mikið fyrir sér en hann er skjótur til svars og sagði í gamansömum tón:
-Hún á bara að vera góð og undirgefin.
Þótt svarið væri hvatvíslegt henti ég það á lofti. Ég er nefnilega dálítið veik fyrir þeirri hugmynd að hvatvísleg tilsvör séu mikilvæg. Þau geta í sumum tilvikum sagt manni heilmikið um karakterinn og stundum gegna þau því hlutverki að vekja upp viðbrögð hjá viðmælandanum sem segja grínararnum eitthvað sem skiptir máli. Kannski var hann að fiska eftir afstöðu minni til feminisma. Kannski var hann að kanna þolmörk mín gagnvart karlrembu eða kannski var hann raunverulega búinn að velta þessu fyrir sér en þorði ekki að setja það fram í alvöru.
-Áttu við kynferðislega, svona að þú hafir áhuga á því að binda hana við rúmstokkinn eða vildirðu eiga konu sem er undirgefin í daglegu lífi, spurði ég.
-Bara svona almennt. Einhverja sem hlýðir bara og er ekki með neitt vesen.
-Og hefur þú þá hæfileika sem þarf til að gera konu undirgefna?Það komu á hann vöflur. 
-Hæfileika? Tjah, ég er enginn ofbeldismaður eða þannig. Ég var nú aðallega að gantast, sagði hann eftir nokkurt hik, rétt eins og hugmyndin um undirgefna konu væri ekki lengur jafn skemmtileg. Samt var ég ekkert hvöss, sagði ekkert eða gerði sem bar vott um að mér gremdist. Enda gramdist mér ekkert.
Gæskurinn hafði greinilega aldrei velt fyrir sér muninum á undirgefni og kúgun og þótt honum þætti í aðra röndina þægileg tilhugsun að geta ráðskast með konuna sína, efast ég um að hann stæði undir ábyrgðinni sem það hefði í för með sér. Hvaða erkifífl sem er getur kúgað maka sinn en ég efast um að þeir sem það gera séu almennt ánægðir með útkomuna. Það þarf hinsvegar leiðtogahæfileika og þolgæði til að koma sér upp undirgefinni konu og ég hef grun um að þeir sem fá kvíðahnút í magann af tilhugsuninni um að kona kunni að ‘vera með vesen’ hafi frekar lítinn skammt af hvorutveggja.