Bara eitthvað annað

Ár eftir ár flykkjast þúsundir manna niður á Austurvöll við þingsetningu og sýna vanþóknun sína í verki. Margir þeirra sem eru sáttir við það hvernig samfélag okkar er rekið í dag, telja allt vera á réttri leið eða að það sé ekkert skárra í boði, skilja bara ekki hvað mótmælin snúast um. Hver er krafan? er spurt.

Mótmæli við þingsetningu snúast ekki lengur um eina, afgerandi kröfu. Einn mótmælir verðtryggingu, annar málþófi, sá þriðji vill láta lögleiða kannabisefni, einhver tjáir einfaldlega almennt úrræðaleysi og vonbrigði með orðunum „helvítis fokking fokk!“ Allt frekar kaótískt og verður ekkert minna kaótískt þótt anarkistar láti ekki sjá sig. Mótmælin snúast um þá almennu tilfinningu að eitthvað mikið sé athugavert við samfélag þar sem nokkrir menn geta skandaliserað endalaust á kostnað annarra. Þeir eru til sem geta ekki einu sinni útskýrt hvað þeir vilja, þeir vilja „bara eitthvað annað.“

Mótmælin snúast aðeins að mjög litlu leyti um það hverjir sitja í ríkisstjórn. Það eru nákvæmlega engar líkur á því að ef Sjallarnir kæmust aftur til valda félli bara allt í ljúfa löð. Óánægjan er dýpri en svo. Óánægjan snýst um valdleysi almennings, skort á upplýsingum um það hvað eiginlega gerðist á Íslandi, hvernig efnahagskerfið sprakk, hvaða ákvarðanir urðu til þess og hver var ábyrgur, hvernig eigi að bæta fyrir það og koma í veg fyrir að það gerist aftur. Rannsóknarskýrslan dugir ekki til. Fólk er óöruggt um framtíð sína, það veit ekki hvort það á að kenna börnunum sínum að spara eða eyða, það treystir ekki lífeyrissjóðunum eða tryggingakerfinu og það verður reiðara eftir því sem það fréttir af fleiri frændsemisráðningum og baktjaldabralli.

Fólk vill „eitthvað annað“. Það vill gegnsætt fjármálakerfi sem hægt er að botna eitthvað í án þess að taka doktorsgráðu í viðskipta- eða hagfræði. Það vill banka sem þjónusta almenning í stað þess að ræna hann. Það vill fyrirtæki sem starfa heiðarlega og borga starfsmönnum sínum góð laun en snúast ekki bara um að mylja undir örfáa toppa. Það vill jafnari skiptingu gæða og réttlátara velferðarkerfi. Það vill að landinu sé stjórnað án klíkuskapar. Það vill að stjórn landins snúist um að finna sem bestar lausnir en ekki að koma höggi á andstæðinginn. Það vill fá að leggja eitthvað til málanna og að það sem hefur til málanna að leggja verði tekið til greina. Það vill vita hvað stjórnmálamenn eru að bralla bak við tjöldin, því það er hætt að treysta þeim og það er yfirleitt ekkert persónulegt, það hefur bara sýnt sig að einkavinavæðing og hagsmunapot viðgengst innan stjórnsýslunnar og fólk er bara komið með algert ógeð á því.

Fólk sem vill „bara eitthvað annað“ veit alveg á hvaða gildum það vill byggja samfélag sitt. Það veit bara ekki hvernig á að fara að því. Og nú þegar við erum komin með það á hreint að það sem við höfum virkar allavega ekki, er kominn tími á að ræða það hvaða leiðir er hægt að fara til að byggja upp eitthvað nýtt. Við þurfum að hætta að velta því fyrir okkur hvernig hægt sé að skikka bankana til að sýna aðþrengdu fólki miskunnsemi en fara þess í stað að leita leiða til að byggja upp nýtt bankakerfi. Við þurfum að hætta að klína öllum skít sem finnst á landinu í andlitið á Jóhönnu Sigurðardóttur og leita þess í stað leiða til að búa til stjórnkerfi þar sem almenningur er bæði upplýstur og ábyrgur.

Það er allavega á hreinu að það sem við höfum dugar ekki til að draga úr ójöfnuði, vernda náttúruna og tryggja öryggi, frið og frelsi. Við þurfum að prófa eitthvað annað og áður en við kippum fúnum grunninum undan valdastofnunum samfélagsins, skulum við velta því aðeins fyrir okkur hvernig þetta eitthvað annað geti litið út.

 

One thought on “Bara eitthvað annað

 1. ————————————-

  Ég held þú vanmetir hópinn sem vill fá Sjálfstæðisflokkinn aftur og mótmælti þess vegna.

  > það sem við höfum dugar ekki til að draga úr ójöfnuði, vernda náttúruna og tryggja öryggi, frið og frelsi

  Vilja íslendingar jöfnuð, náttúruvernd og frið?

  Posted by: Matti | 2.10.2011 | 17:01:20

  —   —  —

  Takk fyrir ágæta spurningu Matti.

  Flest fólk vill búa við frið og öryggi en allt hefur sinn verðmiða. Ég væri t.d. ekki reiðubúin til að fórna tjáningarfrelsi mínu fyrir friðinn. Ef er í boði friður án frelsisskerðingar finnst mér langlíklegast að flestir vilji hann en spurningin er áhugaverð og ef þú (eða einhver annar sem les þetta) veist eitthvað sem gefur okkur tilefni til að efast um það, þætti mér áhugavert að fá fram meiri umræður um það.

  Ég hef aldrei heyrt neinn segja að hann vilji ekki náttúruvernd. Stóriðjusinnar álíta hinsvegar (eða segja það allavega) að vel megi virkja sem mest og reisa fleiri álver „í sátt við náttúruna“. Deilurnar standa ekki um það hvort eigi að vernda náttúruna heldur hvað það merki.

  Jöfnuð, þar komum við aftur að skilgreiningum. Ég vil ekki fullkominn jöfnuð og held að þeir séu ekki margir sem sjá fyrir sér að það væri gott eða gerlegt. En ég trúi því heldur ekki að þeir séu margir sem eru bara sáttir við að 90% borgaranna greiði vexti sem fara beint í vasa hinna 10% eða að einn af hverjum tíuþúsund komist upp með að sölsa fyrirhafnarlítið undir sig eignir og fé sem myndu duga þúsunum til framfærslu. Það sem er slæmt við ójöfnuðinn er þó ekki það að sumir hafi það betra en aðrir heldur hitt að mikill ójöfnuður gefur fáum völd yfir mörgum.

  Posted by: Eva | 2.10.2011 | 17:48:17

  —   —  —

  Góður pistill Eva.

  Posted by: hilmar | 2.10.2011 | 22:10:29

Lokað er á athugasemdir.