Ímyndun?

Mig hlýtur að hafa dreymt almannavarnahávaðann. Kannski hef ég heyrt í sjúkrabíl og skynjunin brenglast svona í svefnrofunum. Ég á mjög erfitt með að kyngja því að mér skjátlist svona hrapalega. Ég var svo viss um þetta að ég fór fram og kveikti á sjónvarpinu. Fannst ég heyra í flugvélum líka og datt helst í hug loftárás. Átti erfitt með að sofna aftur og rauk strax fram til að hlusta á útvarpið þegar ég vaknaði aftur. Það hlýtur að vera upplifun af þessu tagi sem fær fólk til að trúa því að það hafi séð drauga.

 

Varúðarflaut

Ég vaknaði við almannavarnaflauturnar í nótt. Eða fannst ég allavega hafa heyrt í þeim. Rauk auðvitað fram og kveikti á sjónvarpinu til að gá hvað væri að gerast. Fór á netið líka. Ekkert kom fram sem skýrði þetta svo ég fór í rúmið aftur. Er búin að tékka á helstu miðlum og finn ekki orð um almannavarnaflautur. Var þetta svona sterkur draumur eða sjá fjölmiðlar ekki ástæðu til að gefa okkur skýringu á svona uppvakningu?

Líknarmök

-Hún svaf hjá mér, sagði hann þungur á brún.
-Jæja, og var það gott eða slæmt? sagði ég.
-Gott þannig séð, helvíti fínt reyndar en málið er að það var bara helvítis greiðareið. Hún var að þessu til að vera góð við mig. Hún orðaði það m.a.s. þannig.
-Ertu ástfanginn af henni?
-Nei, vá! Nei, alls ekki. Halda áfram að lesa

Gegndrepa

Mér skilst að lykillinn að hamingjunni felist í því að klára allt þetta sem maður byrjaði á endur fyrir löngu.

Þegar maður er búinn að smyrja á sig, fyrir utan venjulegt andlitskrem og húðmjólk, fótafrískandi, hárvaxtarheftandi, rassasléttandi, brjóstastinnandi, augnpokastrekkjandi, svitastoppandi, munnhrukkumildandi og naglbandamýkjandi kremum, þarf maður þá virkilega að klára handáburðinn líka til að ná blissinu?