Sveltandi Íslendingar?

Myndin sem fylgdi frétt DV sýnir svanga Íslendinga í matarleit

Það er ömurlegt að samfélagsumræðan skuli vera á því plani að ef maður ætlar að gagnrýna vafasama meðferð gagna og túlkanir á þeim, skuli maður alltaf þurfa að taka fram að maður sé ekki að lýsa yfir hatri á einhverjum minnihlutahóp eða halda því fram að allt sé í himnalagi og allir búi við réttlæti. Ég tek því strax fram að ég efast ekki um að fátækt sé vandamál á Íslandi.

Engu að síður er þessi fréttaflutningur dæmi um arfavonda blaðamennsku. Þessi alþjóðlega könnun leiðir í ljós að 16000 Íslendingar telja sig ekki hafa nógu gott atlæti. Hún leiðir ekki í ljós að 16000 Íslendingar séu vannærðir. Sýnið mér nokkur hundruð Íslendinga sem eru undir kjörþyngd án þess að það skýrist af einbeittum megrunarvilja áður en þið segið mér að 5% þjóðarinnar búi við hungur.

Ég er ekki að segja að það hafi aldrei gerst á Íslandi á síðustu áratugum að einhver hafi dáið úr hungri en ég leyfi mér að fullyrða í þeim tilvikum eru fleiri breytur sem spila inn í, svosem óregla, heilabilun eða átröskun.

Uppfært: Efasemdir mínar um að hungursneyð ríki á Íslandi hafa vakið hörð viðbrögð.

Bent hefur verið á að margir nái ekki framfleyta sér án aðstoðar hjálparstofnana. En fréttin snerist bara ekkert um það hvort fólk þyrfti eða fengi aðstoð, heldur hvort það fengi nóg að borða. Fólk sem fær úthlutanir frá hjálparstofnunum er ekki sveltandi.  Ég er auðvitað ekki að segja að það sé viðunandi ástand, heldur er ég að efast um að 5% Íslendinga lifi undir hungurmörkum.

Aðrir hafa bent á rýrun kaupmáttar en það var heldur ekki umfjöllunarefnið heldur það hvort fólk fengi nóg að borða. Sá sem fær ekki nóg að borða grennist. Ef 5% þjóðarinnar væru að horfalla þá hlyti heilbrigðisþjónustan að hafa orðið þess vör. Mér finnst þessvegna líklegt að margir þeirra sem segjast ekki fá nóg að borða, eigi við að þeir fái ekki þann mat sem þeir vildu borða, frekar en að þeir séu sveltandi.

Hér má sjá hlutfall vannærðra í ýmsum löndum. Ekki er getið um neina vannæringu á Ísland á listanum en sem dæmi um lönd þar sem 5% þjóðarinnar eru vannærð má nefna Chile, Azerbaijan, Ghana, Egyðpaland o.fl.

Væri ekki nær að skoða þau fjölmörgu vandamál sem eru raunveruleg afleiðing fátæktar á Íslandi og sleppa þessu hungurklámi? Eða halda menn að það bæti eitthvað að ýkja vandann?

 

Saga strokuþræls – 8. hluti

 Í athugun …
Hæfileg refsing fyrir að neyðast til að framvísa fölsuðum skilríkjum, er að mati yfirvaldsins  30 daga fangelsi, óskilorðsbundið. Að villa á sér heimildir í því skyni að forða sér frá pyntingum og jafnvel aftöku án undangenginna réttarhalda er þannig talinn sambærilegur glæpur við líkamsárás á sofandi mann. Margir flóttamenn sem fá þennan dóm sitja þó aðeins helminginn af sér og það á við um Mouhamed. Eftir 15 daga refsivist var honum komið fyrir á Fit, flóttamannahælinu á Suðurnesjum og boðin aðstoð til að sækja um hæli. Halda áfram að lesa

Saga strokuþræls – 7. hluti

Til Íslands
Hann fór að ráðum félaga sinna. Kærði úrskurðinn en beið ekki eftir niðurstöðu. Afhenti manni sem heimsótti flóttamannabúðirnar alla peningana sína og fékk í staðinn falsað vegabréf og flugmiða til Kanada. Honum var sagt að hann myndi millilenda á Íslandi en það væri ekkert mál því þar væri ekkert vegabréfaeftirlit. Halda áfram að lesa

Saga strokuþræls – 6. hluti

Að skrifa nafnið sitt
Löggan rétti honum blað og túlkurinn sagði að hann ætti að skrifa nafnið sitt á það. Hann sagði honum að í skjalinu væri rakið það sem hann hefði sagt lögreglunni af högum sínum. Mouhamed skildi ekki það sem stóð á blaðinu en hann kunni að skrifa nafnið sitt og fannst sjálfsagt að gera það fyrst hann var beðinn um það enda hafði hann enga hugmynd um merkingu þess að undirrita skjal sem lögreglan réttir manni. Þeim fannst undirskriftin víst ekki nógu góð. Hann fékk annað blað og löggan teiknaði einhver tákn á miða og sagði honum að setja þau á blaðið í staðinn fyrir nafnið sitt. Hann spurði hvort þeir væru að gefa honum nýtt nafn en túlkurinn útskýrði fyrir honum að svona væri nafnið hans ritað með latnesku letri. Halda áfram að lesa