Mikilvægasta máltíð dagsins

Fyrir mig er kvöldverðurinn mikilvægasta máltíð dagsins. Morgunmaturinn minn, sem er einn kaffibolli, er líka mikilvægur en ég myndi frekar sleppa honum en kvöldmatnum.

Það er nákvæmlega ekkert sem bendir til þess að morgunverðurinn sé mikilvægari en aðrar máltíðir. Það má vel vera að hann sé mikilvægastur fyrir íþróttamenn og fólk í erfiðisvinnu en margir finna ekki fyrir neinni þörf til að borða á morgnana. Og það er bara allt í lagi því það er ekkert sem bendir til þess að fólk hafi gott af því að borða ef það er ekki svangt.

Íslenska aðferðin

Byggja sem flest hótel til að taka vel á móti ferðamönnum og gera allt sem hægt er til að laða sem flesta til landsins. Rukka þá svo (og einnig Íslendinga því ekki getum við mismunað fólki) fyrir aðgang að náttúrunni til að sporna gegn eyðilegginunni sem álagið hefur í för með sér.

Væri ekki einfaldara að vernda landið gegn ágangi ferðamanna með því að byggja bara ekkert fleiri hótel?

Væri það ekki líka afbragðs forvarnaraðgerð gegn gjaldþrotum þegar krónan styrkist og dregur úr ferðamannastraumnum?

Af hverju í ósköpunum er þessi bóluhagfræði svona vinsæl?

Borgaraleg óhlýðni Alþingis?

Samkvæmt fréttum gera reglur Evrópuráðsins ráð fyrir kynjakvótum. Hér segir  að kynjahlutföll eigi að endurspegla kynjahlutföll á þingi og að minnst einn fulltrúi af því kyni sem á hallar skuli sitja í hverri nefnd.

Þessu er ekki hægt að framfylgja ef kosið er í nefndir. Samt er íslenska sendinefndin kosin.

Þjóðþingið gefur þannig skít í reglur Evrópuráðsins. Það verður ekki túlkað sem annað en yfirlýsing um að reglurnar eigi ekki rétt á sér. Kannski yfirlýsing um að kosningar séu lýðræðislegri en kynjakvótar.

Þegar almennir borgarar brjóta reglur meðvitað í pólitískum tilgangi, heitir það borgaraleg óhlýðni. Hvað heitir það þegar þjóðþing notar sömu taktík í fjölþjóðlegu samstarfi?

Reiðin

Ég verð oftar en ekki mjög reið þegar ég sé fréttir af fyrirætlunum Ögmundar Jónassonar. Reiðin gýs upp í mér, hnúarnir kreppast, andlitið roðnar og ég byrja að froðufella.  Ég hef samt ekki lamið Einar. Mannskepnan er nefnilega svo snilldarlega útbúin að hún þarf ekki að veita öllum sínum hvötum útrás, hvað þá að hún sé knúin til að níðast á þeirri manneskju sem hendi er næst. Reiði er nefnilega ekki ávísun á ofbeldi.

Því miður, þú býrð í útlöndum svo þér kemur þetta ekki við

Mig langaði til þess að mæla með tilteknu framboði en komst þá að því að þar sem ég á lögheimili erlendis má ég ekki skrifa undir meðmælalista.

Ég þekki þess líka dæmi að fólk sem er búsett erlendis hefur mætt á kjörstað og áttað sig þá á því að það er dottið út af kjörskrá vegna þess að það hefur búið svo lengi erlendis. Nú er hægt að kæra sig inn á kjörskrá aftur svo það er í raun enginn augljós tilgangur með því að taka fólk út af kjörskrá. Þetta hefur bara meiri skriffinnsku í för með sér.

Hvaða rök eru annars fyrir því að svipta íslenska ríkisborgara borgaralegum réttindum sínum ef þeir flytja til útlanda? Ef rökin eru þau að fólk sem ekki býr á landinu eigi ekki að hafa sömu tækifæri til áhrifa, væri þá ekki eðlilegast að svipta fólk ríkisborgararétti ef það flytur?