Mávar

Eynar:  Ef ég væri mávur myndi ég sitja efst í þessum byggingarkrana og horfa yfir lendur mínar. Láta mig svo gossa niður og bera ekki fyrir mig vængi fyrr en í fimmtíu metra hæð.
Eva:  Aldrei hef ég séð máv hegða sér þannig.
Eynar:  Nei og það sýnir bara að mávar hafa ekkert hugmyndaflug.

Fráhald

Ég er í þriggja daga fráhaldi frá dólgafeminisma.

Er orðin heltekin. Sé fram á að verða jafn sjúk og klámvæðingarliðið ef ég sný mér ekki að einhverju öðru af og til. Og það er hroðalegt, því eins áhugavert og það er að lítill hópur sé að sölsa undir sig völd og áhrif út á helbert kjaftæði, þá er það mannskemmandi til lengdar að sökkva sér svona niður í það sem nálgast helst djöflafræði miðalda.

Ég er þokkalega ánægð með sjálfa mig í dag, hef ekkert opnað Sjáldrið, ekki lesið nýju kommentin á Pistlinum, samþykkti þau bara án þess að lesa (já það var pínu erfitt) og hef ekki einu sinni skrunað í gegnum umræðukerfi netmiðlana. Horfði á kvöldfréttir og búið. Afleiðingin er sú að ég komst yfir hellings vinnu í dag.

Kaktusinn á marengstertunni

Maður nokkur hafði á orði á snjáldrinu í morgun að bloggið mitt (pistillinn.is) væri eins og blóm í eyðimörkinni. Það þótti öðrum manni full væmin líking og sagði að það væri frekar eins og kaktusinn á marengstertunni. Ég er reyndar hrikalega væmin, dreg mörkin við fjólubláa glimmerengla, en verð að játa að ég hef töluverða samkennd með kaktusum á marengstertum. Auk þess þarf svona risastórt marengstertusamfélag kaktus til mótvægis við sykurfrauðið og rjómann. Því miður er ég samt óttalegt kaktuskríli eins og þetta á myndinni, lokað inni í lyklakippu. Halda áfram að lesa

Einfalt trix

Eynar: Ég skal kenna þér trix svo þú gleymir ekki kóðanum aftur. Þú leggur bara hæstu töluna á minnið og setur hana í annað veldi.
Eva: Hvernig á það að hjálpa? Útkoman segir mér ekkert um hinar tölurnar.
Eynar: Nei en ein talan kemur tvisvar sinnum fyrir og margfeldið af tveimur tölum er jafnt þeirri þriðju.
Eva: Jahá? En af hverju ætti ég frekar að muna það en fjögurra talna streng?
Eynar: Ja það er bara einfaldara.