Aumingjapólitík

Afsakið en hversvegna er þetta vandamál á sama tíma og maður heyrir endalausan barlóm yfir því hvað bótaþegar eru mikil byrði á samfélaginu?

Af hverju má ekki bjóða atvinnulausum vinnu við að gista hjá þeim sem þurfa aðstoð? Af hverju má ekki bjóða fólki með skerta starfsgetu laun fyrir að hafa ofan af fyrir gamla fólkinu á elliheimilinu sem starfsfólk má ekki vera að því að sinna almennilega vegna þess hve allar sjúkrastofnanir eru undirmannaðar? Hverskonar fávitaháttur er við lýði þar sem mannekla og atvinnuleysi þrífast hlið við hlið?

Mér er fokk sama þótt það kosti nokkrum krónum meira að greiða fólki laun en bætur. Það er áreiðanlega dýrara þegar upp er staðið að halda uppi þjónustu fyrir þúsundir manna sem þjást af áunnu hjálparleysi og þunglyndi yfir því að vera einskis metnir.

Velferðarsamfélag merkir ekki „sem hæstar bætur fyrir sem flesta“. Velferðarsamfélag merkir samfélag þar sem fólki líður vel og fólki líður ekki vel þegar það fær stöðugt þau (oftast fölsku) skilaboð að enginn hafi þörf fyrir það. Fjárhagslegt ósjálfstæði er mannskemmandi og að gefa fólki, fullfrísku eða fötluðu þau skilaboð að ekkert sem það er fært um að gera sé metið til fjár, það stríðir á móti allri velferðarhugsjón. Það er ekki verkefnaskortur sem er vandamál samfélaga þar sem atvinnuleysi er mikið, heldur viljaleysi til að finna út hvað fólk er fært um að gera og hvar þörfin liggur.

Þessi bótastefna sem rekin er allsstaðar á Norðurlöndunum, í stað þess að skapa störf, er til skammar og það að ein manneskja liggi andvaka af fjárhagsáhyggjum, vitandi að því lengur sem hún er atvinnulaus því minni líkur eru á að hún verði ráðin, á meðan manneskja í næsta húsi liggur hjálparvana í svitakófi og hlandspreng og telur stundirnar til morguns, það er svo sjúkt og rangt að eina orðið sem hægt er hafa um það er aumingjapólitík.