Auðvitað var hann hleraður

man-eavsdropping-688x451

Einkalíf fræga fólksins þykir svo rosalega áhugavert (ekki skil ég hversvegna) að fjölmenn stétt manna lifir góðu lífi á því að njósna um ómerkilegustu athafnir þess og græðir fúlgur fjár á myndum þar sem einhver stjarnan klórar sér í nefinu.

Enginn þarf að velkjast í vafa um að til eru bankastarfsmenn sem fylgjast gaumgæfilega með bankareikningum Egils Ólafssonar. Enginn þarf heldur að efast um að einhver starfsmaður í heilbrigðisgeiranum hefur lagst í rannsóknarvinnu til að komast að því hvort Megas hafi fengið klamma eða Sóley Pétursdóttir farið í fóstureyðingu.

Fólk er bara því miður oft á svo lágu plani að fá kikk út úr því að vita hvað fræga fólkið er að bardúsa í einkalífi sínu. Áhuginn beinist ekki bara að hugsanlegum stórglæpum eða banvænum sjúkdómum, heldur líka að hversdagslegum hlutum. Þessvegna er ekkert vafamál að einhverntíma hefur síminn hjá Jóni Baldvin verið hleraður. Það var auðvelt. Kannski voru það útsendarar íslensku leyniþjónustunnar. Kannski Nató. En kannski líka bara einhver meðallúser hjá Landssímanum, sem fannst gífurlega áhugavert að vita að Bryndís væri með siginn fisk í pottinum.