Auðvitað þarf löggan almennilegan tæknibúnað

Ég varð nett pirruð þegar ég áttaði mig fyrst á því að löggan væri með menn á launum við að hanga á facebook. Ég hangi töluvert á snjáldrinu sjálf og væri rík kona í dag ef ég fengi hundraðkall fyrir hvert innlegg en það hefur samt aldrei hvarflað að mér að sækja um vinnu við það.

Ergelsi mitt tók sig upp aftur þegar ég sá þessa frétt. Hélt einhvernveginn að það væru nettengdar tölvur á flestum löggustöðvum.

En svo náði ég taki á fordómum mínum og lagði þá til hliðar. Vitanlega á löggan að vera á facebook. Ekki hlustar fólk á útvarpið og ekki les það blöðin svo eina leiðin til að ná til þessarra ellefuþúsund vina löggunnar er í gegnum fb. Og nú hugsar nískupúkinn í manni kannski sem svo að þeir hljóti þá að geta notað þær tölvur sem eru á stöðvunum en stöldrum aðeins við og skoðum hvaða fréttir það eru sem þeir eru að koma til skila. Á þeirri stundu sem þetta er ritað munu t.d. þeir vinir lögreglunnar sem velja að fá síðuna upp á fréttaveituna sína sjá að fyrir 14 klukkustundum vann lögreglan það afrek að stöðva golfiðkun unglinga í Kópavogi. Einnig er að finna tvær nýlegar tilkynningar frá vegagerðinni. Síðasta miðvikudag spyr lesandi hvort megi hjóla á Laugaveginum og löggimann svarar að bragði.

Það hlýtur náttúrulega hver maður að sjá að slíkum upplýsingum þarf að koma til almennings eigi síðar en í hvelli. Annars gæti fólk haldið að það megi spila golf á götum úti. Það gengur því ekki að menn þurfi að bíða með að komast niður á stöð til að koma þessum bráðnauðsynlegu skilaboðum áleiðis.

Nú kann einhver að segja að nú þegar sé fullt af fólki á fullum launum við að koma upplýsinum um lögreglumál til almennings. Þ.e.a.s. svokallaðir fréttamenn. En við verðum að gera okkur grein fyrir því að fréttamenn eru ekki búnir að heyra af facebookhangsi landans og munu því seint nota þá aðferð til að koma upplýsingum út. Auk þess eru þeir ekki endilega að sinna þeim fréttaflutningi sem almenningur hefur áhuga á. Ef við skoðum t.d. forsíðu dv, þá trónar þar efst þessi frétt . Ekki orð um golf á óviðeigandi stöðum eða hvar megi hjóla.

Því segi ég það, hvernig í ósköpunum á almenningur að komast að því hvað er að gerast hjá löggunni fyrr er kominn i-pad í hvern löggubíl? Helst ættu allar löggur að fá i-phone líka. Enda blaðamönnum enganveginn treystandi til að sinna upplýsingaþörf almennings.

One thought on “Auðvitað þarf löggan almennilegan tæknibúnað

  1. —————————–
    Svo má ekki gleyma mikilvægum störfum lögreglunnar við að keyra aðrar löggur milli staða þegar viðkomandi eru að skemmta sér og HANDTÖKU EFTIR PÖNTUN- annað verður ekki ráðið af frétt Fréttatímans í blaðinu í dag (15/07/11)

    Posted by: Sjöfn Kristjánsdóttir | 15.07.2011 | 9:02:29
    —————————–

    Og nú þegar klukkan er 14 að íslenskum tíma er komin enn ein stórfréttin inn á snjáldursíðu löggunnar, enn ein tilkynningin frá vegagerðinni.

    Mikið er ég nú fegin að þeir fengu 11 i-pada. Annars hefðum við ekki komist að því fyrr en eftir 11 data að enn er unnið við fræsingar á Reykjanessbraut.

    Posted by: Eva | 15.07.2011 | 14:03:15

Lokað er á athugasemdir.