Æ, bróðir minn litli.
Heldurðu virkilega að ég viti ekki að þú ert að fylgjast með mér?
Þú sem veist hvað ég er logandi hrædd við stóra bróður, hélstu í alvöru að ég tæki eftir neinu óvenjulegu? Eða að ég fyndi ekki einhvern klárari en þig sem fengi botn í málið fyrir mig? Ég verð að viðurkenna að ég er ofurlítið impóneruð yfir því að þú skulir fara svona að, það hlýtur að hafa kostað nokkra fyrirhöfn en sjálfs þín vegna ættirðu samt að ganga inn um aðaldyrnar næst.
Ég veit hvað þú ert að hugsa og það er rökrétt, því eins og ég hef áður sagt þér eru hlutirnir oftast nákvæmlega eins og þeir líta út fyrir að vera. Málið er að sálarlíf fólks er bara ekki alltaf rökrétt og þú verður að horfa á heildarmyndina ef þú ætlar að fá rétta niðurstöðu.
Ég er ekkert búin að yfirgefa þig yndið mitt. Ég þurfti bara nokkurra vikna frið til að sætta mig við það sem ég þoli ekki.