Að svíkja málstaðinn með því að stíga upp í jeppa

Einu sinni hélt ég því staðfastlega fram að ég væri kapítalisti. Ég trúi nefnilega alveg á frjáls viðskipti og að markmið viðskipta eigi að vera það að fá meira út úr þeim en maður leggur í þau. Ég vil ekki sjá stéttlaust samfélag þótt mér ofbjóði þær öfgar að sumir búi við örbirgð en öðrum gæti ekki enst ævin til að njóta eigna sinna. Ég álít fullkomlega rétt og eðlilegt að fólk njóti góðs af því að þroska hæfileika sína og vinna af metnaði og ósérhlífni. Mér finnst allt í lagi þótt sumir leyfi sér meiri lúxus en aðrir. Mér finnst m.a.s. í lagi að fólk njóti góðs af eignum foreldra sinna.

Það sem mér finnst ekki í lagi er að fólk geti keypt sér völd yfir öðrum, valtað yfir öll réttindi fátækra og fáfróðra og sölsað undir sig stöðugt stærri hluta af gæðum jarðar. Mér finnst slæmt að manngildi fólks sé metið eftir fjárhagsstöðu þess og mér finnst hrikalegt hvað neysluhyggjan tekur mikinn toll af náttúrunni. Mér finnst ekkert að því að hafa gaman af flottum jeppum. Mér finnst hinsvegar vont að svo margir byggi sjálfsvirðingu sína á flottum jeppum að jeppaframleiðsla og rekstur þessara stóru bíla valdi himni, hafi og jörð alvarlegum skaða.

Ég hætti að kalla sjálfa mig kapítalista þegar mér varð ljóst að það er ekki hægt að greina „heilbrigða“ arðhyggju frá stóriðjustefnu, hernaðarhyggju og heimsvaldastefnu. Að það er ekki hægt að greina sundur viðskiptafrelsi og endalaust svindl og blekkingar. Að siðrænn kapítalismi er ekki til sem pólitísk stefna, heldur í skársta falli eitthvað sem almennilegt fólk með góðar tekjur getur praktíserað í sínu daglega lífi.

En ég vil semsagt ekki beita fallöxinni á alla sem eiga fleiri en tvenna skó. Þegar ég lýsi yfir andúð á kapítalisma á ég við:
-það að menn geti stjórnað lagasetningu í krafti auðvaldins,
-að menn geti stjórnað fréttaflutningi í krafti auðvaldsins,
-að menn komist upp með bankarán og stórfellt fjármálamisferli af öðru tagi,
-að fátækir séu hindraðir í því að rétta stöðu sína en ríkum auðveldað að eignast meira,

Hoogovens
Ég á við þetta,

nato_logo11
og þetta

dongria-kondhs-in-the-state-capitalÉg á við þá svívirðu að stórfyrirtæki geti beitt lögreglu og her til að hrekja fólk frá heimilinum sínum svo risarnir geti stundað sitt báxítnám í friði.

Á maður virkilega að þurfa að útskýra þetta? Það lítur út fyrir að sé ástæða til þess. Allavega hef ég síðustu daga orðið fyrir því nokkrum sinnum að hitta fólk sem biðst beinlínis afsökunar á því að langa í nýtt gasgrill eða finnast eðlilegt að læknar séu á hærri launum en ræstitæknar. Ég var m.a.s. spurð að því um daginn hvort ég væri fáanleg til að „svíkja málstaðinn“ með því að fara í Þingvallaferð á jeppa. Hefur fólk þessa öfgakenndu mynd af mér? Eða hafa viðhorfin til neysluhyggju breyst með hruninu?

Baráttan gegn heimsvaldastefnu, hernaði og náttúruspjöllum væri lítils virði ef við neituðum að huga að eigin ábyrgð. Við verðum að draga úr ruslasöfnun og mikið óskaplega væri gott ef fólk nyti bara virðingar fyrir það sem það gerir heimininum til góðs fremur en eignir sínar og stéttarstöðu. En það hryllilega við kapítalismann er ekki það að einhver kall eigi einkaþotu og kryddi steikina með gulli. Þetta eru aðeins tvær birtingarmyndir skrímslisins, táknmynd þess sem gefur ríkum manni frelsi til að komast hvert sem hann vill, hvenær sem honum hentar, án þess að taka tillit til annarra, tákn þeirrar úrkynjunar að nota lúxusvöru, ekki til að njóta hennar heldur til að undirstrika stöðu sína. Þetta tvennt er út af fyrir sig ógeðfellt. Það sem gerir kapítalsimann að algjöru ógeði er ekki þó efnishyggjan, heldur það viðhorf að menn megi þjóna henni með því að kaupa sér vald yfir öðrum. Ég hlýt að mega mótmæla því þótt mér finnist ekki ástæða til að hengja hvern þann sem langar í jeppa.

One thought on “Að svíkja málstaðinn með því að stíga upp í jeppa

 1. ————————————

  12.000 manneskjur án vinnu, 6 – 8.000 eru fluttir úr landi. þjóðin gæti bjargað sér með frjálsum handæraveiðum, það leysti byggða, fátæktar og atvinnuvanda Íslendinga, en það má ekki. Ofurskip sægreifanna td. Ólafs í Samskip og Haldórs Ásgríms ganga svo um fiskimiðin að líkja má við náttúruhamfarir, allir fiskistofnar gefa lítið brot af eðlilegum afla.
  Hver er baráttan gegn náttúruspjöllum á fiskimiðum Íslendinga?

  Posted by: aagnarsson | 22.09.2011 | 21:32:54

  —   —   —

  Æ ég veit því miður ekki um neina slíka baráttu en ef þú efnir til aðgerða er ég sannarlega tilbúin til að mæta.

  Posted by: Eva | 22.09.2011 | 23:57:42

Lokað er á athugasemdir.